144. löggjafarþing — 29. fundur,  6. nóv. 2014.

hjúkrunarheimilið Eyri á Ísafirði.

[11:01]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þau svör og vil gjarnan að hann botni þau betur svo hægt sé að svara þeirri spurningu minni hvort hjúkrunarheimilið fari að fullu í gang á næsta ári.

Ég vil líka beina annarri spurningu til hæstv. ráðherra. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að það sé milljarðs króna halli á rekstri hjúkrunarheimila. Ríkisendurskoðun leggur til að bætt verði upplýsingagjöf um starfsemi og rekstur heimilanna þannig að fylgjast megi nánar með umfangi og gæðum þjónustunnar.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann hyggist fara að þeim tilmælum Ríkisendurskoðunar og vildi gjarnan líka heyra í honum hvort það hafi verið gerð einhver greining og samanburðarhæf skýrsla um mismuninn á milli ólíkra rekstrarforma hjúkrunarheimila og hver kostnaður ríkisins er í þeim efnum.

Ég er svolítið ósátt við þessa flugu sem er hérna komin [Hlátur í þingsal.] (Forseti hringir.) en það er víða fluga á vegg. Ég óska eftir svörum.