144. löggjafarþing — 29. fundur,  6. nóv. 2014.

verkfall lækna.

[11:15]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að taka undir með hæstv. ráðherra, það þarf svo sannarlega að gera kjör þessarar stéttar samkeppnishæfari. Það á við um mjög margar stéttir á Íslandi. Við erum í þeirri stöðu að við höfum orðið fyrir gríðarlegri lífskjaraskerðingu.

Læknar, sem hafa ásamt öðru heilbrigðisstarfsfólki unnið undir miklu álagi árum saman, ekki síst eftir hrun, eru nú í fyrsta skipti í sögunni komnir í verkfall. Það er vitað mál að fyrir vel flesta lækna er það mjög erfið og þungbær ákvörðun, en segja má að mat stéttarinnar hafi verið það að það þyrfti slíkar aðgerðir til til þess að stjórnvöld vöknuðu og áttuðu sig á alvarleika stöðunnar.

Staða heilbrigðismála í landinu er af þessum ástæðum og ýmsum öðrum í uppnámi. Aðalsjúkrahús landsins er í úreltu húsnæði. Fjármagn skortir í málaflokkinn. Ljóst er að ráðherra verður að gera sér grein fyrir því að hann þarf að segja læknum í verkfalli og okkur í þessum sal sem og landsmönnum öllum hver stefna stjórnvalda er í heilbrigðismálum.

Í fjárlagafrumvarpinu hafa komið fram óljós áform um breytingar á rekstrarformi, óljós svör við því hvort um frekari einkavæðingu verði að ræða. Nú er runnin upp sú stund að ráðherra þarf að standa með stefnu sinni. Hann á að segja okkur hvað hann ætlast fyrir. Ef hann ætlar út í frekari einkavæðingu í trássi við vilja þjóðarinnar á hann að segja okkur það og þá skulum við takast á um þá sýn ráðherrans.