144. löggjafarþing — 29. fundur,  6. nóv. 2014.

verkfall lækna.

[11:17]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda kærlega fyrir að taka þetta mál upp. Ég byrja kannski á svipuðum nótum og sá hv. þingmaður sem var hér á undan mér og spyr einfaldlega: Hvernig ætlar ríkisstjórnin og hæstv. heilbrigðisráðherra að tryggja góða, örugga heilbrigðisþjónustu fyrir landsmenn? Ég klóra mér í hausnum yfir því á hverjum einasta degi, ég verð að segja eins og er. Það sem til þarf er vel menntað og nægt magn af heilbrigðisstarfsfólki. Það þarf góðan aðbúnað og auðvitað þurfum við að hafa jafnt aðgengi notenda. Við menntum lækna okkar vel. Við útskrifum nægilega marga á hverju ári. En þegar þessir læknar koma út á vinnumarkaðinn sem við sköpum þeim hörfa þeir frá. Þetta er bara staðan og við verðum að horfast í augu við hana og finna út hvað við getum gert.

Okkur vantar lækna á Íslandi. Okkur vantar þá í nær öllum sérgreinum. Okkur vantar röntgenlækna á Landspítalann, krabbameinslækna á Landspítalann. Okkur vantar heimilislækna og það vantar geðlækna á landsbyggðinni. Svona get ég haldið áfram lengi.

Af hverju koma læknar ekki aftur til okkar eftir sérnám eða flytjast út? Það er einfalt svar við því: Það er út af launum og það er út af aðbúnaði.

Á fyrsta ársfjórðungi 2014 taldist Læknafélagi Íslands til að á landinu störfuðu um 1.100 læknar. 60% þeirra lækna eru yfir fimmtugt og liðlega fjórðungur lækna er á sjötugsaldri. Samkvæmt félagaskrá Læknafélagsins hafa 330 læknar með lækningaleyfi flust af landi brott undanfarin fimm ár, en einungis 140 flust aftur til landsins. Árlega flytja því tæplega 40 fleiri læknar frá landinu en til þess — árlega, herra forseti.

Ég held áfram í næstu ræðu minni, en ég spyr eins og ég spurði í byrjun: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera í þessu?