144. löggjafarþing — 29. fundur,  6. nóv. 2014.

verkfall lækna.

[11:22]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þetta er því miður ekki í fyrsta sinn sem maður heyrir um einhvers konar krísur í heilbrigðiskerfinu. Því verður ekki neitað og við hljótum öll að vita að vandinn er í grundvallaratriðum lág laun og lélegur aðbúnaður lækna. Það er þess vegna sem þeir koma ekki aftur heim og þeir segja okkur þetta. Þeir senda okkur tölvupóst og segja okkur þetta. Þetta er borðleggjandi.

Ég vil stinga upp á því að þetta verði eitt helsta verkefni ríkisstjórnarinnar. Sömuleiðis langar mig að vekja athygli á því að það er mjög mikilvægt að ríkisstjórnin taki á þessu vandamáli með trúverðugum hætti. Ef við veltum fyrir okkur til hvers ríkisvaldið sé í grundvallaratriðum þá er það t.d. til þess að tryggja réttindi borgaranna, til að tryggja öryggi, til að tryggja menntun og tryggja heilbrigði. Það tvennt síðarnefnda er ekki sjálfsagt í öllum ríkjum. Það tvennt fyrrnefnda er eitthvað sem öll ríki í það minnsta þykjast standa að. En menntun og heilbrigði eru eitthvað sem Íslendingar hafa ákveðið sem þjóð að ríkið eigi að sinna. Ég þori að fullyrða að þetta sé ein helsta forsenda þess að ríkisvaldið sé til staðar til að byrja með, þ.e. gagnvart íslenskri þjóðarsál. Ég ætla að fullyrða það þar til annað kemur í ljós.

Ástæðan fyrir því að ég segi að mikilvægt sé að ríkið taki á vandanum með trúverðugum og skýrum hætti er vegna þess að þegar þessi þjónusta er ekki nógu góð þá gerist það óhjákvæmilega að fólk fer að leita annað heldur en til ríkisins til þess að eiga við sín heilbrigðisvandamál. Það eitt og sér er vandamál. Ef ríkið ætlar að segja að þessi málaflokkur eigi áfram að vera hjá ríkinu þá verður ríkið að standa sig í þessu máli. Þetta snýst ekki bara um heilbrigði þegnanna í víðum skilningi, þetta snýst líka um hlutverk ríkisins gagnvart málaflokknum. Ef ekki er tekið á þessu með trúverðugum hætti lítur það óhjákvæmilega út sem stefnubreyting, stefnubreyting sem ég tel að þessi ríkisstjórn hafi ekkert lýðræðislegt umboð til.