144. löggjafarþing — 29. fundur,  6. nóv. 2014.

tekjuskattur o.fl.

356. mál
[12:06]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki vinna í gangi í ráðuneytinu til heildarendurskoðunar á tekjuskattslögunum, en það væri kannski þarft verk til einföldunar og ákveðinnar hreinsunar að taka inn í lögin fjölda atriða sem er að finna í bráðabirgðagreinum og samræma að nýju. Það gæti verið framfaraskref að gera það.

Varðandi skilgreiningu á tengdum lögaðilum mundi ég einfaldlega benda mönnum á að lesa greinina sem er verið að fella út og velta því fyrir sér hversu auðvelt það er í framkvæmd, hvort sem er fyrir eftirlitsaðila eða fyrir þá sem hugsanlega kunna að falla undir greinina, að gera sér grein fyrir því hvort greinin nái til þeirra eða ekki. Í mínum huga er skilgreiningin sem fram kemur í þessum lið svo óskýr og hún er svo matskennd að ekki verður við það búið. Þess vegna er lagt til að skilgreiningin sem slík falli niður en eins og segir eru almennu reglurnar engu að síður áfram í gildi, þ.e. að það eigi að gæta að armslengdarsjónarmiðum á grundvelli almennu reglunnar í 57. gr.