144. löggjafarþing — 29. fundur,  6. nóv. 2014.

hafnalög.

5. mál
[12:39]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta umfjöllunarefni er auðvitað birtingarmynd þess vaxtar sem orðið hefur í þessari grein og hún er fyrirsjáanleg og sýnir fram á að við erum svolítið illa undirbúin fyrir hana. Við þurfum að taka á okkur rögg í þeim efnum því að þetta er ekki aðeins þegar kemur að hafnalögunum, það er líka þegar kemur að skipulagsvaldi sveitarfélaga, sem nær nota bene ekki yfir þessar fiskeldiskvíar en þær geta haft mikil umhverfisleg áhrif. Það þarf að stíga mjög varlega til jarðar og fara yfir allt sviðið, því að það er mjög auðvelt að ganga þannig fram í þessum málum að firðir og viðkvæm svæði og lífríki beri varanlegan skaða af, ef menn hafa ekki varann á. Menn hafa hvað þetta varðar stuðst við rannsóknir Norðmanna og Færeyinga sem búa yfir töluverðri og góðri reynslu en lífríki þeirra og hafsvæði er samt sem áður, þó að við séum ekki langt í burtu, mjög ólíkt okkar. Það skortir mjög á rannsóknir í þessum efnum. Bara þetta álitamál sem kemur upp hér í mjög jákvæðri umfjöllun umhverfis- og samgöngunefndar um þessi mál, sem ég vona að nái fram að ganga í þinginu, sýnir okkur að við þurfum að einbeita okkur að þessu máli, setja meira fjármagn í rannsóknir sem byggja á raunverulegri reynslu okkar og því lífríki og þeim svæðum sem um ræðir hér við Ísland.