144. löggjafarþing — 29. fundur,  6. nóv. 2014.

hafnalög.

5. mál
[12:51]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Möller andsvarið. Ég ætla ekki að fara í þann skollaleik (KLM: Gamall sveitarstjórnarmaður.) að velta mér upp úr því hver gerði hvað. Ég vil bara benda á að menn eru að breyta aftur til fyrra horfs og þar sem ég fagna því hlýtur að liggja í hlutarins eðli að það hafi verið mistök að breyta þessu.

Eins og ég sagði hefði ég viljað fara alveg til fyrra horfs þar sem þetta var 90% en þarna er farið með það í 75%. Ég er ekkert alveg viss um að allar hafnir geti farið í nauðsynlegt viðhald, en bendi á að þeir eru orðnir hættulegir sumir þessir kajar. Komnar eru þungatakmarkanir þannig að þörfin er brýn og ég hefði viljað sjá hlutfallið hærra.

Ég bendi á að það þarf líka fjármagn í þetta. Það er ekki nóg að setja þessi lög því að í lögunum segir að það þurfi að koma fjármagn, að þetta sé allt saman háð því að fjármagn sé á fjárlögum. Ég biðla því til þingheims að láta ekki standa á því að við getum fylgt þessu eftir og komið til móts við þær hafnir þar sem hættan er mest.