144. löggjafarþing — 29. fundur,  6. nóv. 2014.

hafnalög.

5. mál
[12:53]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hreinskilið svar um að mistök hafi verið gerð árið 2003, ég er alveg sammála því, hef lengi haft þá skoðun.

Tvær spurningar hef ég í viðbót til hv. þingmanns. Af hverju beitir hv. þingmaður sér ekki fyrir því að þetta fari upp í 90% í stað 75%, að vísu er það hækkað um 15% hér. Það er önnur spurningin en hann styður væntanlega þessa breytingu og þá um leið að það verði ekki nema 75% þó að hann vilji fara hærra.

Hin spurningin lýtur að því sem hann gat um, þ.e. mjög lágum framlögum miðað við fjárlagafrumvarp til hafnarframkvæmda. Ég leyfi mér næstum því að fullyrða að þetta hafi aldrei verið eins lágt og það birtist okkur í fjárlagafrumvarpinu. Þess vegna er það spurning til þingmannsins hvort það sé ekki algert grundvallaratriði, miðað við þessa breytingu og það ástand sem er víða í höfnum landsins, að nauðsynlegt sé að auka það fé sem veita á til hafnarframkvæmda af fjárlögum og hvort hann muni þá beita sér fyrir breytingartillögu hvað það varðar við fjárlög.

Það skal ekki standa á mér að vera meðflutningsmaður hv. þingmanns á þeirri tillögu ef hann vill flytja hana að ég tali nú ekki um stuðninginn.