144. löggjafarþing — 29. fundur,  6. nóv. 2014.

loftslagsmál.

[14:16]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Hlýnun jarðar og súrnun sjávar er stærsta verkefni okkar kynslóðar. Ekkert ógnar lífskjörum Íslendinga og annarra jarðarbúa með sama hætti. Vísindamenn hafa talað skýrt og nú þurfum við stjórnmálamenn að bregðast við. Rannsóknir vísindamanna sýna að við stjórnmálamenn þurfum að gera meira í umhverfismálum og hraðar en við gerum nú ef ekki á illa að fara, ef hitinn á jörðinni á ekki þegar á þessari öld að hækka langt umfram þau tveggja stiga mörk sem sett voru sem þó mundu hafa mjög alvarlegar afleiðingar víða um heim. Jafnvel spá menn svo mikilli hlýnun ef ekki er aðhafst frekar en við gerum nú að það má kalla hamfarahlýnun með skelfilegum afleiðingum fyrir náttúruna og fólkið á jörðinni þegar líður fram eftir öldinni.

Á sunnudaginn var kynntu Sameinuðu þjóðirnar samantekt á rannsóknum milliríkjanefndarinnar og það eru löngu tekin af öll tvímæli um að gróðurhúsaáhrif af manna völdum valda þeim breytingum sem við er að fást. Allar hugmyndir um að það geti verið okkur í hag eru eins og hver önnur fásinna og vaxandi áhyggjur af súrnun sjávar eru meðal þess sem við Íslendingar hljótum að hugsa sérstaklega um í þessu sambandi.

Forsætisráðherra sagði hjá Sameinuðu þjóðunum fyrir skemmstu að við yrðum að stöðva losun gróðurhúsalofttegunda. „Halt“ held ég að erlenda orðið sé sem hann notaði, og ég spyr af þessu tilefni hæstv. umhverfisráðherra hvort ríkisstjórnin sé með í undirbúningi að marka þá stefnu að við stöðvum losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi, að við komum henni niður í 0, og hvort það markmið sé þá tímasett eða hvort ríkisstjórnin ætli að hraða þeim áformum að vinna gegn loftslagsbreytingum sem við höfum haft hér uppi.

Við höfum fylgt stefnu Evrópusambandsins í þessu efni og þeim markmiðum sem Evrópusambandið hefur sett sér og ég spyr ráðherra hvort hann telji að við eigum að taka skrefið lengra, hvort við eigum að vera metnaðarfyllri í markmiðasetningu okkar en Evrópusambandið er og taka meira afgerandi afstöðu í þeim efnum. Ég spyr líka með hvaða hætti áform ríkisstjórnarinnar um olíuvinnslu og gasvinnslu samræmist markmiðunum í loftslagsmálum.

Þá vil ég spyrja hæstv. ráðherra um rannsóknir á súrnun sjávar hér við land, hvort hann hafi áform um það að auka þær rannsóknir. Nú er það kunnara en frá þurfi að segja að við eigum okkar góðu lífskjör fyrst og síðast að þakka hafinu í kringum landið og þeim auðlindum sem þar er að finna, þeirri landhelgi sem við eigum, og þess vegna eru miklir hagsmunir okkar undir því komnir að ekki verði afdrifaríkar breytingar á lífsskilyrðunum í hafinu í kringum okkur.

Enn fremur spyr ég hvaða aðgerðir ráðherrann sjái vænlegastar til að ná meiri árangri og hraðar í baráttunni gegn loftslagsvánni hér á Íslandi. Til hvaða aðgerða getum við gripið? Þó að við séum fámenn þjóð gætum við sett gott fordæmi á alþjóðavettvangi og höfum gert það að ýmsu leyti, til að mynda í jarðhitanum og margvíslegum verkefnum í endurnýjanlegri orku. Sér ráðherrann fleiri verkefni, ný svið þar sem við getum gripið til aðgerða til að ná meiri árangri í þessari baráttu en við gerum nú?

Skilaboð vísindamannanna eru alveg skýr. Þær áætlanir sem við höfum samþykkt, þau áform sem við nú höfum, duga ekki til. Það þarf meira til.

Auðvitað þarf meira til en litla Ísland. En hvernig sér ráðherrann fyrir sér að við getum á alþjóðavettvangi enn frekar vegna þeirra gríðarlegu hagsmuna sem við eigum undir beitt okkur í baráttunni gegn loftslagsvánni? Sér hann fyrir sér að við getum til að mynda haft forustu fyrir smáríkjum, smáum eyríkjum sem ekki síst eiga (Forseti hringir.) lífsafkomu sína alla undir því að hér fari ekki illa?