144. löggjafarþing — 29. fundur,  6. nóv. 2014.

loftslagsmál.

[14:34]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að hefja þessa mikilvægu umræðu. Ég kemst ekki hjá því að benda á kaldhæðnina sem felst í því að sækja olíu til að hægt sé að brenna meira af henni, en olía er nú aðgengileg vegna þess að við höfum brennt svo miklu af henni og ísinn á norðurslóðum hefur því bráðnað.

Mér hefur einmitt, eins og mörgum öðrum sem talað hafa hér, fundist erfitt að átta mig á því hvað það er nákvæmlega sem við eigum að gera, hvað það er nákvæmlega sem ríkisstjórnin hyggst gera eða ekki gera í því sambandi, sérstaklega þegar olía er orðin umræðuefni á hinu háa Alþingi og vissulega líka í samfélaginu.

Mér finnst rétt að geta þess að það eru tæknilegir vankantar á því að hefja þá vegferð að hætta að nota olíu. Þau tæknilegu vandamál eru raunveruleg og við verðum að hafa þau í huga á leiðinni fram á við. Í gegnum árin hefur mönnum dottið í hug að nota vetni, það er mjög óhagkvæmt svo ekki sé meira sagt. Metan getur keypt okkur tíma en yrði samt sem áður, að mér skilst, að sambærilegu vandamáli eftir nokkra áratugi, en tíminn er auðvitað verðmætur í þessu efni. Þegar til lengri tíma er litið tel ég að eina leiðin sé rafmagn. Rafmagnsframleiðsla er, þvert á það sem margir telja, nokkuð einföld. Það er frekar auðvelt að búa til rafmagn úr alls konar hlutum með endurnýjanlegum hætti. Vandinn er geymslan og flutningur á rafmagni. Það þýðir rafhlöður.

Í því sambandi tel ég mikilvægast, og mér finnst það nokkuð augljóst, að til þess að vera til fyrirmyndar, sem Ísland gæti í raun verið, getum við sannað að hægt sé að reka nútímasamfélag án olíu með því að skipta út bílaflotanum fyrir rafmagnsbíla. Það þýðir að ríkisvaldið þarf að grípa inn í og beinlínis hvetja til þess með frekari aðgerðum, ekki bara að fella niður virðisaukaskatt, eins og gert hefur verið sællar minningar, heldur þarf það að ganga lengra og reyna að hafa það sem raunhæfan kost að allir (Forseti hringir.) fararkostir á Íslandi geti verið rafknúnir.