144. löggjafarþing — 29. fundur,  6. nóv. 2014.

loftslagsmál.

[14:46]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegur forseti. Eldgosið sem núna geisar í Holuhrauni er ágæt áminning fyrir okkur Íslendinga um hvað gæði náttúrunnar, það að geta dregið að okkur andrúmsloft og lifað af, geta í raun verið fallvölt. Við upplifum það einmitt þessa dagana að fólk getur vart farið út og stundað íþróttir og annað útivistarstarf sökum mengunar af völdum eldgossins þegar mengunin er mikil í ákveðnum landshlutum, við sjáum það á heimasíðu t.d. Umhverfisstofnunar. Þarna finnum við á eigin skinni hvað það er í raun og veru dýrmætt að hafa það með okkur að geta lifað af á jörðinni og lifað góðu lífi. Loftslagsskýrslan sem var birt fyrir nokkrum dögum sýnir okkur það að mannkynið verður að hætta að nota jarðefnaeldsneyti fyrir næstu aldamót og það er engum blöðum um að fletta lengur. Vísindamenn eru á einu máli um þetta.

Ég var ánægð með það þegar forsætisráðherra setti tóninn á leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna nýlega varðandi þessi mál og talaði um að Ísland gæti orðið fyrsta jarðefnaeldsneytislausa landið í heiminum. Ég hlakka til fyrir mína parta að vinna að frekari stefnumótun í þessa átt og að áætlunum til þess að þetta geti orðið að raunveruleika. Ég tel að þetta mál sé miklu nær okkur og brýnna en fram kemur í umræðunni um það.