144. löggjafarþing — 30. fundur,  11. nóv. 2014.

húsnæðismál Landspítalans.

[13:39]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Eins og alþjóð er kunnugt var skuldaleiðréttingin kynnt í gær og við eigum vafalaust eftir að ræða hana frekar í þessum sal og framkvæmd hennar þannig að ég ætla ekki að spyrja sérstaklega út í þá aðgerð. Hins vegar vakti athygli mína, og það voru kannski stóru fréttir gærdagsins, að þessari aðgerð hefði verið flýtt, það hefði verið hert á henni, og bætt afkoma ríkissjóðs gefin upp sem ástæða þessarar breyttu tímaáætlunar. Þá hljóta enn og aftur að vakna spurningar um forgangsröðun.

Ef afkoma ríkissjóðs er betri en menn höfðu áætlað er spurningin hvernig hún er nýtt. Á sama tíma og þessi aðgerð er kynnt er lagt fram fjáraukalagafrumvarp þar sem ekki er gert ráð fyrir aukafé í rekstur Landspítalans sem ég hef þó ekki heyrt annað en að fulltrúar allra flokka hafi talað hér um sem algjört forgangsmál. Nýlega var kynnt skýrsla þar sem sést hvernig hlutur Landspítalans í ríkisútgjöldum hefur lækkað þó að þar hafi aðeins farið að horfa til betri vegar eftir árið 2012.

Ég þykist viss um að þegar hæstv. forsætisráðherra ræðir hér um aðgerðir mótmælenda og gefur þeim góð ráð hafi hann heyrt, eins og ég, þegar hann ræðir við almenning í landinu, að áhyggjur fólks í þessu landi af heilbrigðiskerfinu fara dagvaxandi. Það er ekkert skrýtið. Við horfum á það að æ fleiri krabbameinssjúklingar fara á hverju ári til útlanda til að komast í svokallaðan jáeindaskanna. Til að hægt sé að setja upp slíkt tæki á Íslandi þarf að ráðast í úrbætur á húsnæðismálum.

Í síðustu viku bauð ég hæstv. heilbrigðisráðherra samráð okkar stjórnarandstöðunnar og aðstoð hvað varðar húsakost Landspítalans. Hann sagðist ekki þurfa á aðstoð okkar í stjórnarandstöðunni að halda eða samtali við okkur.

Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra:

1. Af hverju var þessi bætta afkoma ekki nýtt til þess að horfa sérstaklega til spítalans (Forseti hringir.) og heilbrigðisþjónustunnar?

2. Telur hæstv. (Forseti hringir.) forsætisráðherra ekki (Forseti hringir.) þörf á því að við náum góðu samráði, allir flokkar á Alþingi og almenningur í landinu, um nýjan Landspítala?