144. löggjafarþing — 30. fundur,  11. nóv. 2014.

leiðrétting á forsendubresti heimilanna.

[13:53]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Á meðan eldarnir loga í velferðarkerfinu þá leikur forsætisráðherra sér í Hörpunni. Það fer vel á því að sýnt sé í Hörpunni því að með skuldaniðurfærslunni færir ríkisstjórnin tekjuhæsta fólkinu í landinu heila Hörpu að gjöf, yfir 20 milljarða kr. Það er óréttlátt og lýsir miklu skilningsleysi á stöðu þeirra heimila sem eiga í erfiðleikum og á stöðu ríkissjóðs.

Hjón með yfir 16 milljónir í árstekjur og einstaklingar í sambærilegri stöðu fá yfir 20 milljarða kr. af skattfé. En meðalniðurfærslan er 1.300 þús. kr. og það lækkar greiðslubyrði á mánuði um 7–9 þús kr. hjá innan við helmingi heimila í landinu. Ég spyr forsætisráðherra: Heldur hann því virkilega fram að 7–9 þús. kr. lækkun á greiðslubyrði á mánuði sé leiðrétting á forsendubrestinum sem heimilin urðu fyrir í skuldamálum sínum? Hefur hæstv. forsætisráðherra ekki áhyggjur af því að heimilin muni sjálf þurfa að borga þessar 7–9 þús. kr. af því að þau eru enn þá bundin við verðtrygginguna, af því að kostnaður í bankakerfinu muni hækka, vegna þess að matarskatturinn muni hækka og vaxtabæturnar minnka? Hæstv. forsætisráðherra. Er ekki eðlilegt að spurt sé á þessum degi: Hvar eru 300 milljarðarnir? Hvar er heimsmetið? Hvar eru 20%? Hvar er afnám verðtryggingarinnar? Hvar eru aðgerðirnar fyrir 110%-fólkið? Hvar eru aðgerðirnar fyrir 31 þúsund leigjendur í landinu?