144. löggjafarþing — 30. fundur,  11. nóv. 2014.

leiðrétting á forsendubresti heimilanna.

[13:59]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður heldur bara áfram að grafa. Hann getur ekki sætt sig við að það sem hann hefur haldið fram hér undanfarna mánuði hafi allt reynst rangt og telur að með því að endurtaka það eina ferðina enn geti hann látið eins og hann hafi ekki heyrt leiðréttingu á öllum sínum fullyrðingum.

Hvað varðar hins vegar spurningu hv. þingmanns um hvort ekki sé hætta á því að verðbólgan éti upp leiðréttinguna bendi ég hv. þingmanni á að kynna sér þá kynningu sem hann vísaði í og var sýnd í gær þar sem kemur einmitt fram að ef svo óheppilega vill til að verðbólga fari einhvern tímann aftur á skrið á Íslandi er þeim mun mikilvægara að búið sé að ráðast í þessa leiðréttingu, vegna þess að þá mun hún skipta enn þá meira máli við að gera fólki kleift að takast á við þann vanda sem steðjar að.

Af því hv. þingmaður heldur áfram að telja upp hin ýmsu atriði sem hann telur að rýri kjör heimilanna minni ég á það aftur, hæstv. forseti, að aðgerðir ríkisstjórnarinnar, ekki bara þessi aðgerð (Forseti hringir.) heldur fjölmargar aðgerðir, (Forseti hringir.) hafa aukið kaupmátt íslenskra heimila meira en nokkurs staðar annars staðar í Evrópu, (Forseti hringir.) kaupmátturinn mun halda áfram að aukast og aðgerðir, (Forseti hringir.) bæði í skattamálum og annars staðar, munu enn bæta kjörin.