144. löggjafarþing — 30. fundur,  11. nóv. 2014.

aðgengi að upplýsingum.

[14:02]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég hef ekki önnur svör fyrir hv. þingmann en þau hvað varðar aðgengi almennings að gögnum, hvort sem er gögnum sem unnin voru í tengslum við aðgerðir ríkisstjórnarinnar í skuldamálum heimilanna eða hvað varðar skilmála Landsbankabréfsins, að um það mun bara fara að lögum.

Við gerum okkur væntanlega öll grein fyrir því að í skuldaaðgerðunum eru undir gríðarlega stórir gagnagrunnar og eftir því sem spurningar verða nákvæmari þarf frekar að huga að persónuvernd. Ég vonast þó til þess að hægt verði að svara beiðnum um upplýsingar og reyndar höfum við búið þannig um hnútana að við viljum gefa sem allra gleggsta mynd af heildaráhrifunum. Ég vonast til þess að kynningin sem birt var í gær sé til vitnis um það að menn vilja virkilega veita sem bestar upplýsingar. Taka verður á því sem upp á vantar eftir því hvernig fyrirspurnin liggur. Hið sama gildir með skilmála Landsbankabréfsins, mér er ekki kunnugt um það, svo ég segi það alveg eins og er, hvort það er raunhæft að skilmálar þess bréfs eða það bréf í heild sinni sé gert aðgengilegt fyrir almenning.

Varðandi útreikninga til grundvallar breytingum á tekju- og útgjaldafrumvörpum þeim sem liggja fyrir þinginu, mun ráðuneyti mitt gera sitt allra besta til að aðstoða þingið eða þingmenn. En það verður að segjast eins og er að starfsmenn ráðuneytisins hafa nóg á sinni könnu nú þegar við að vinna þau mál sem eru unnin innan ráðuneytisins og eflaust dálítið erfitt að bæta því við sem þingið kallar eftir. (Forseti hringir.) Menn munu þó gera sitt besta og það ætti kannski að vera til umhugsunar fyrir þingið hvort hér þurfi líka að byggja upp getuna á nefndasviðinu til að vinna enn frekar að málum á borð við það sem hv. þingmaður vekur máls á.