144. löggjafarþing — 30. fundur,  11. nóv. 2014.

aðgengi að upplýsingum.

[14:06]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Til að svara fyrri fyrirspurninni þá er ég sammála hv. þingmanni um að við eigum að vera með opna og gegnsæja stjórnsýslu og leggja okkur fram um að gera almenningi auðvelt að glöggva sig á gögnum eða öðrum upplýsingum sem er að finna í stjórnsýslunni.

Á móti síðan vega persónuverndarsjónarmið og í ákveðnum tilvikum þarf af sérstökum ástæðum að gæta trúnaðar og ekki er unnt að upplýsa um allt.

Varðandi aðstöðuna í þinginu — já, þetta er til umhugsunar fyrir okkur öll og spurningin hér undirliggjandi: Hvernig getum við styrkt þingið til að það geti betur rækt sitt hlutverk? Þetta er þó að minnsta kosti talsverð framför frá þeim tíma þegar nefndarmenn þurftu sjálfir að rita allar fundargerðir og nefndarálit voru meira eða minna handskrifuð og vélrituð í framhaldinu. Við höfum að minnsta kosti stórlega styrkt nefndasviðið en þau mál sem hv. þingmaður vísar hér í eru býsna (Forseti hringir.) flókin í meðferð og ekki auðvelt að láta reyna á allar hugmyndir um breytingar á tekju- og útgjaldahlið fjárlaganna þannig að hægt sé að framkalla svarið samdægurs.