144. löggjafarþing — 30. fundur,  11. nóv. 2014.

skuldaleiðrétting ríkisstjórnarinnar.

[14:08]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það var stór dagur í gær þegar tilkynnt var um niðurstöður varðandi skuldaleiðréttingarnar. Mig langaði að beina fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra varðandi tekjudreifinguna og óska honum jafnframt til hamingju með árangurinn í þessum málum.

Heyrst hafa ýmsar raddir um að meiri hluti fjármunanna renni til þeirra sem eru yfir hátekjumörkum. Ég get ekki betur séð, þegar maður glöggvar sig á þessum tölum og horfir á þá sem eru með lægstu tekjurnar, að um 75% af þeirri fjárhæð sem rennur í þessi úrræði fari til þeirra sem eru með lægri tekjur. Ég tel rétt að þær staðreyndir sem liggja á borðinu um þessi mál komi hér fram. Jafnframt væri áhugavert að heyra hlið hæstv. ráðherra á því hvernig þetta er sambærilegt við þær aðgerðir sem farið var í á síðasta kjörtímabili.

Við studdum ýmsar aðgerðir sem farið var í á síðasta kjörtímabili eins og skuldaniðurfærslur og leiðréttingu til þeirra hópa sem verst urðu úti varðandi fasteignalánin en ekki voru allir sammála um að nógu langt væri gengið. Talað var um forsendubrest úr þessum stól og meðal annars töluðu ýmsir hv. þingmenn þáverandi stjórnarliðs um að forsendubrestur hefði orðið. Fremstur þar í flokki fór hv. þm. Helgi Hjörvar og ég man ekki betur en að efnahags- og viðskiptanefnd hafi verið að leita leiða til að ráðast að þessum vanda og leiðrétta forsendubrestinn.

Kannast hæstv. forsætisráðherra við þessa umræðu hér í þinginu? Kannast hann við það að þáverandi ríkisstjórn hafi verið búin að leggja drög að því að skattleggja fjármálafyrirtækin á þann hátt sem núverandi ríkisstjórn hefur gert til þess að ráðast í þessa kjarabót fyrir heimilin í landinu?