144. löggjafarþing — 30. fundur,  11. nóv. 2014.

skuldaleiðrétting ríkisstjórnarinnar.

[14:12]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það er mjög áhugavert að draga fram þessar staðreyndir hér á Alþingi til að reyna að koma umræðunni einhvern veginn á þann stað að við séum að tala um staðreyndir sem á borðinu liggja.

Aðeins varðandi fjármögnunina vegna þess að hæstv. forsætisráðherra náði auðvitað ekki að svara öllum þeim spurningum sem ég bar fram. Sá hann einhver teikn á lofti um það að fyrrverandi ríkisstjórn hefði verið komin í startholurnar með þá skattheimtu á fjármálafyrirtækin sem liggur til grundvallar þeirri aðgerð sem við erum að tala um? Hér tala menn allt í einu núna um að annaðhvort sé verið að eyða allt of miklu í þessa aðgerð þannig að menn sjá ofsjónum yfir því hvað heimilin í landinu fá eða þá að þetta sé allt of lítið. Ég átta mig ekki alveg á um hvað athugasemdirnar í raun og veru snúast. Jafnframt tala menn um að það eigi að eyða þessum fjármunum í eitthvað annað, fjármunum sem ekki lágu til grundvallar vegna þess að fyrrverandi ríkisstjórn þorði ekki að fara í þessa skattheimtu. (Gripið fram í.)