144. löggjafarþing — 30. fundur,  11. nóv. 2014.

um fundarstjórn.

[14:15]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég treysti því að forseti tryggi það að við fáum tækifæri til að ræða þessa skuldaleiðréttingu þannig að maður þurfi ekki að leiðrétta forsætisráðherra héðan úr ræðustólnum. Ástæðan fyrir því að ég óskaði eftir að taka hér til máls er að fyrr í umræðunni var kvartað yfir því hversu mörgum fyrirspurnum væri beint til ráðherra og það væri skiljanlegt að tæki tíma að svara þeim.

Mig langar að vekja athygli á því að ég tók mig til og sendi formlegt bréf, tölvupóst, til hæstv. menntamálaráðherra til að reyna að fá upplýsingar um málefni Landbúnaðarháskóla Íslands. Nú eru liðnir næstum tveir mánuðir, ítrekun hefur verið send og ekkert svar borist. Þetta var tilraun mín til að gefa viðkomandi hæstv. ráðherra tækifæri til að svara í rólegheitunum og gera það án þess að það þyrfti að fara hér inn í þingsalinn.

Nú er ég knúinn til að fara með þetta sem formlega skriflega fyrirspurn sem væntanlega tefst þá að svara, það tekur 10–15 daga, og við erum að fara í bæði fjáraukalög og fjárlög og höfum ekki hugmynd um hvað er verið að gera í þessum málaflokkum. Ég sit í hv. allsherjar- og menntamálanefnd og þarf að taka afstöðu án þess að hafa nokkurn skapaðan hlut af gögnum (Forseti hringir.) í höndunum um hvaða tilboð væri í gangi, hvernig þetta hefði verið gert o.s.frv. (Forseti hringir.) Það er þetta sem málið snýst um. Menn geta kvartað yfir fyrirspurnum en þá þarf auðvitað skipulegri afgreiðslu.

Setjið þetta í samhengi við 5% niðurskurð í ráðuneytunum (Forseti hringir.) sem hent var hér inn á síðustu stundu.