144. löggjafarþing — 30. fundur,  11. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[15:03]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, það er að sönnu rétt. Skuldaniðurfærsluútgjöldin munu kosta ríkissjóð talsvert á annað hundrað milljarða kr. þegar allt er saman lagt og öllu er til haga haldið sem ekki var gert í áróðurskynningunni í gær, svo sem eins og áhrifunum á Íbúðalánasjóð, tapaðri ávöxtun vegna fjár sem ekki mun ávaxtast inn í séreignarsparnaðarkerfinu á komandi árum og fleira mætti þar telja, tekjutap sveitarfélaganna vegna útsvars o.s.frv.

Ég fæ engu að síður ekki betur séð, ef bankaskatturinn á að vera uppsprettan, en að ríkið sé að taka á sig kostnað sem einfaldlega sparast þá í vaxtakostnaði á biðlánunum, t.d. ef á að greiða inn á lánin í byrjun árs 2015 og byrjun árs 2016 en bankaskatturinn innheimtist í nóvember hvert ár.

Það að ráðstafa þessum fjármunum sem verulega betri afkoma ríkissjóðs á þessu ári, tímabundin, felur í sér er fórnarkostnaður fyrir ríkið. (Forseti hringir.) Það er ekki eins og það komi af himnum ofan og hafi ekki áhrif. Þá er í raun og veru verið (Forseti hringir.) að gera aðgerðina dýrari á kostnað ríkisins.