144. löggjafarþing — 30. fundur,  11. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[15:22]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu ánægjulegt að hér kemur fjáraukalagafrumvarp sem á yfirborðinu boðar verulega bætta afkomu ríkisins á árinu sem er að líða. Það er ánægjuefni og ástæða til að gleðjast yfir því. Afgangurinn á heildarjöfnuði verður marktækur og frumjöfnuður jákvæður upp á rúmlega 100 milljarða kr. sem er umtalsverð fjárhæð. Ef hún er til dæmis sett í samhengi við vaxtakostnað ríkissjóð er augljóst mál að við erum farin að eiga fyrir vöxtunum og rúmlega það.

En það er að fleiru að hyggja í þessum efnum. Út af fyrir sig má segja að óvæntu tíðindin hafi verið útkoma ársins 2013 þegar í ljós kom, þrátt fyrir hrakspár ýmsar og mikinn málflutning á Alþingi fyrir einu og hálfu ári, að horfurnar væru mjög dökkar, að þvert á móti hafi árið komið betur út ef eitthvað var en ráð hafði verið fyrir gert og ríkissjóður var rekinn nokkurn veginn á núlli.

Það var í samræmi við þau markmið og þá miklu vinnu sem unnin hafði verið allt frá árunum 2009 og 2011. Að því leyti til má segja að efnahagsáætlun til meðallangs tíma hafi gengið fullkomlega eftir þegar upp var staðið. Auðvitað var það gríðarlega mikilvægt. Öðru hafði oft og tíðum verið spáð á umliðnum árum þegar miklar ræður voru haldnar um að skattahækkanir og áherslur þáverandi ríkisstjórnar í ríkisfjármálum væru að sliga hagkerfið og drepa og hér færi allt á vonarvöl. Öðruvísi fór það nú. Á síðasta heila fjárlagaári sem fyrrverandi ríkisstjórn bar ábyrgð á náðust markmiðin um jöfnuð í ríkisrekstri.

Veikleikarnir eru hins vegar þeir að sú bætta afkoma sem boðuð er í fjáraukalagafrumvarpinu er að uppistöðu til vegna óreglulegra liða. Hér er talsverður texti um það hvað frumjöfnuðurinn batni mikið milli ára en brúttófrumjöfnuðurinn, að meðtöldum óreglulegum liðum, borinn saman við niðurstöður áranna 2012 og 2013, þegar engum slíkum óvæntum óreglulegum happdrættisvinningum var til að dreifa hjá ríkinu, heldur þvert á móti gjaldfærðir miklir óreglulegir liðir á útgjaldahlið — frumjöfnuðurinn að frátöldum óreglulegum liðum verður jákvæður um 62 milljarða kr., aðeins fáeinum milljörðum meiri en á árinu 2013. Þegar betur er að gáð kemur líka í ljós að undirliggjandi afkoma ríkisins, að frátöldum óreglulegum liðum, er sáralítið að batna. Á bls. 46 stendur eftirfarandi setning, með leyfi forseta:

„Þegar framangreindir óreglulegir liðir á tekju- og gjaldahlið í frumvarpinu eru undanskildir er áætlaður undirliggjandi bati í afgangi á heildarjöfnuði mun minni eða sem nemur 1,7 milljörðum kr.“

Það er talsvert miklu minna en 43 milljarðar í afgang, er það ekki? Það fór ekki mikið fyrir umfjöllun um þetta í framsöguræðu hæstv. ráðherra, kannski af skiljanlegum ástæðum, vegna þess að hér koma vonbrigðin til sögunnar. Þrátt fyrir það, sem vissulega er ánægjulegt, að tekjustofnar ríkisins styrkist með auknum bata í hagkerfinu og skatttekjur sem slíkar aukist um 12,9 milljarða kr. elta útgjöldin það nokkurn veginn uppi, að vísu sum svokölluð óregluleg. Eiginlegur undirliggjandi bati á raunverulegum rekstri ríkisins er því miður sáralítið að batna. Það er alvara málsins. Að því leyti til er afkoman áfram í járnum.

Það munar aldeilis um hina óvæntu liði sem eru fyrst og fremst tveir mjög stórir. Annar er hin myndarlega arðgreiðsla Landsbankans, sem greiðir strax í febrúarmánuði tæpa 20 milljarða í arð til ríkisins, rétt eftir að fjárlögum var lokað hér í fyrra. Hv. þm. Oddný Harðardóttir benti réttilega á að það kæmi svolítið spánskt fyrir sjónir. Það munar um minna og þetta er viðbót við arðgreiðslur frá öðrum bönkum, Landsvirkjun o.s.frv. Hinn liðurinn er áformuð bókfærsla á 26 milljarða lækkun eigin fjár Seðlabankans sem ríkið ætlar að telja sér til tekna á árinu. Það eru nokkuð sérkennilegar bókhaldsæfingar, satt best að segja, sem má deila um að sé þessi raunverulegi afkomubati. Í hverju er afkomubatinn fólginn öðru en bókhaldi þegar eigið fé Seðlabankans lækkar um 26 milljarða og það er fært beint yfir í að lækka skuld ríkisins við Seðlabankann? Af því að það kemur í gegnum sjóðstreymið virðist eiga að færa þetta svona.

En það vantar fleira inn í myndina. Ef áformin standa eins og þau voru í frumvarpi ráðherra í fyrravor veit ég ekki betur en að á móti þessu lækkaða eigin fé eigi að koma skuldbinding frá ríkinu um að leggja Seðlabankanum til meira eigið fé ef hann kallar eftir því, ef hann þarf á því að halda. Hvernig ætla menn að bókfæra þá skuldbindingu? Á hún að standa utan bókhalds? Er hægt að lækka eigið fé Seðlabankans, telja sér það til tekna en sleppa því að gjaldfæra eða bókfæra með einhverjum hætti skuldbindinguna sem kemur á móti um að eigið fé verði aukið aftur ef á þarf að halda?

Ég hygg að fleirum en mér gangi illa að fá alveg botn í þessar færslur allar. Og veikleikinn er líka sá að ekkert frumvarp er komið fram um þetta. Að þessu leyti til byggir fjáraukalagafrumvarpið hér og þessi mikli afkomubati, af hverjum 26 milljarðar eiga að fást með þessum hætti, á óframkomnu frumvarpi. Mér heyrðist hæstv. ráðherra segja að fjallað hefði verið um það í ríkisstjórn í morgun. Þá verður ansi lítill tími til að fara í þá flóknu ferla sem þarna eiga þó að eiga sér stað og rýna í þá með Ríkisendurskoðun, ríkisreikningsmönnum og öðrum slíkum því að þetta verður að ganga upp. Það var ekki nægjanlega vel um þetta búið eins og frumvarpið kom fram í fyrravor og var greinilega ekki komið samkomulag milli fjármála- og efnahagsráðuneytisins og Seðlabankans þannig að málið dagaði uppi.

Ég hef þess vegna miklar efasemdir um að það sé skynsamlegt hjá hæstv. fjármálaráðherra að slá um sig með því núna að þessi mikli afkomubati hjá ríkinu geri það að verkum að hægt sé að dúndra tugum milljarða í viðbót inn í skuldalækkunaraðgerðina og flýta henni. Það er vissulega gott að spara vaxtakostnað á biðlánunum á þessum þremur árum sem áttu eftir að liggja en það þarf að huga að ríkinu sjálfu líka og hvernig það kemur út úr þessu.

Annar liðurinn er hreinn einskiptisliður sem verður ekki endurtekinn, það fer að verða lítið fé eftir í Seðlabankanum til að lækka oftar. Hinn er þannig að Landsbankinn mun ekki greiða 20 milljarða í arð miðað við undirliggjandi afkomu sína mörg ár í viðbót. Ástæðan fyrir því að Landsbankinn getur greitt mikinn arð um þessar mundir er að hann hefur uppfært eignasafn sitt með verulegum hagnaði nokkur ár í röð, eins og menn gerðu sér alltaf vonir um að mundi gerast, og velur af þeim ástæðum að greiða eiganda sínum umtalsverðan arð.

Ef við horfum á afkomu bankans frá grunnrekstri býður hún ekki upp á svona arðgreiðslur. Það vantar mikið upp á það. Satt besta að segja er áhyggjuefni hversu hægt hefur gengið hjá bönkunum að komast í sæmilega ábatasaman grunnrekstur. Þeir munu ekki lifa endalaust á uppfærslu á eignasöfnum sínum. Ég spái að það dragi hratt úr því á næstu árum og við þurfum að hafa bankana sterkt fjármagnaða þannig að það þarf líka að hafa í huga hversu skynsamlegt það er að ganga nærri eiginfjárgrunni bankans þó að hann sé mikill um þessar mundir.

Með öðrum orðum eru þessir tveir stóru óreglulegu liðir, sem að uppistöðu til skýra afkomubatann bókhaldslega, hvorugur í hendi til næstu ára. Annar er það alls ekki og hinn er allt eins líklegur til að lækka á næstu árum. Einmitt þess vegna er meiri ástæða en ella til að rýna í raunverulegan undirliggjandi rekstur ríkisins og hvernig hann er að þróast.

Skatttekjurnar hafa aukist, efnahagsbatinn skilar því. Það stóð alltaf til og það grætilega er að afkoma ríkisins gæti verið enn betri ef menn leyfðu skattstofnunum að halda sér og hinir sjálfvirku margfaldarar með bata í hagkerfinu færu að skila meiri og meiri tekjum án þess að hækka þyrfti nokkurn einasta skatt. Það er hins vegar dýrt að lækka þá við slíkar aðstæður. Tekjuskatturinn gefur núna meira af sér. Með öðrum orðum er skattalækkunin á miðþrepi í fyrra orðin dýrari en hún leit út fyrir að vera á pappírunum þá, það er meira tekjutap fyrir ríkið frá því sem verið hefði að halda skattinum óbreyttum. Það nálgast kannski 6 milljarða í staðinn fyrir 5. Þannig gæti maður áfram talið.

Ég hef áhyggjur af því að grunnurinn sem ríkið þarf að hafa sé of mikið veiktur. Við skulum ganga hægt um gleðinnar dyr áður en við förum að trúa því að þetta sé allt saman komið í himnalag og Ísland jafnvel að verða best í heimi aftur. Það vantar ýmislegt upp á það.

Vissulega er ánægjulegt að okkur skuli hafa tekist að standa þannig að ríkisrekstrinum undanfarin ár að frávik frá fjárheimildum hafa stórminnkað. Nú er skaði að formaður og varaformaður fjárlaganefndar skuli ekki vera í salnum, sérstaklega varaformaður fjárlaganefndar, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, sem ítrekað og endurtekið hefur haldið því fram, á síðasta kjörtímabili til dæmis, að það væri fullkomið agaleysi í fjármálunum. Má ég biðja menn að fletta upp á bls. 52 og skoða myndina þar í greinargerð með frumvarpinu frá sjálfum fjármála- og efnahagsráðherra. Þar segir skýrt í texta, með leyfi forseta:

„Myndin sýnir að þeirrar tilhneigingar hefur gætt að taka upp í fjáraukalög ýmsar útgjaldaheimildir sem fremur hefði átt að gera ráð fyrir í fjárlögum. Þannig kemur fram að á árabilinu 1998 til 2008 var meðaltal frávika í fjáraukalögum um 5% af frumútgjöldum fjárlaga …“

Hér er þetta frávik sýnt án óreglulegra liða vegna þess að þeir eru mjög breytilegir milli ára. Þetta sýnir frávikið í raunverulegum rekstri ríkisins. Það var að meðaltali 5% af frumútgjöldum á tímabilinu 1998–2008, á 11 ára tímabili. Við munum hverjir voru þá við völd og stýrðu fjármálaráðuneytinu.

Svo kemur meira í textanum:

„Myndin sýnir líka að aukið aðhald í ríkisfjármálum sem innleiða þurfti í kjölfar bankahrunsins haustið 2008 hefur stuðlað að talsvert bættu verklagi að þessu leyti undanfarin ár. Þannig er meðaltal frávika á árabilinu 2009 til 2014 liðlega 1,6%.“

Það er mun betri árangur að þessu leyti undanfarin fimm ár. Hvað segir hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson við því? Það er ánægjuefni og vonandi tekst að halda áfram á þessari braut.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða fær nú 413,9 millj. kr. í aukafjárveitingu sem var skorin niður við trog í fyrrahaust. Framhaldsskólarnir fá 400 milljónir sem allir vissu að voru fjársveltir þannig að ekki vísaði á neitt nema halla. Hæstv. ríkisstjórn verður líka að horfast í augu við það þar sem hún stóð ekki þannig að málum við afgreiðslu fjárlaga í fyrra að raunsætt væri að það héldi sér. Margt mætti segja um allt endemisklúðrið í kringum Framkvæmdasjóð ferðamannastaða, en tíminn leyfir það ekki.

Vandi Landspítalans er hins vegar ekki tekinn fyrir hér. Á að keyra hann aftur í halla upp í hátt í 2 milljarða kr. á þessu ári og láta hann sitja uppi með hann? Eða á að bregðast með einhverjum hætti við auðsýnilegri þörf hans fyrir rýmri fjárveitingar?

Ég tel að útreiðin á Vegagerðinni gangi ekki upp, að setja 1.150 millj. kr. úr framkvæmdahlið vegamála yfir í viðhaldssokkinn kostnað í vetrarviðhaldi og öðru viðhaldi. Ef það á að verða ávísun á minni framkvæmdagetu Vegagerðarinnar á næsta ári og þarnæsta líst mér ekki á framhaldið. Það er ekki hægt. Það er gríðarleg þörf fyrir að setja aftur meiri peninga í raunverulega uppbyggingu vega sem eru að stórskemmast. Þetta getur ekki gengið svona áfram.

Við verðum líka að ræða þetta í samhenginu hallalaus fjárlög sem er mjög vinsælt hugtak um þessar mundir. Ekki geri ég lítið úr því að mikilvægt er að fjárlögin séu án halla og helst með afgangi. En hvernig er hallaleysinu náð? Við skulum ekki blekkja okkur ef hallaleysinu er náð með því að búa til gríðarlega uppsafnaða þörf, t.d. í fjárfestingum í innviðum samfélagsins. Eru fjárlögin í raun og veru hallalaus ef húsnæði Landspítalans er á sama tíma að grotna niður og ekkert horfir til úrlausnar í þeim efnum og ef vegirnir eru á sama tíma að stórskemmast? Þá er ég ekki bara að tala um að þeir séu erfiðir yfirferðar, heldur verður beint tjón á vegunum ef ekki er hægt að halda þeim við, ef ekki er hægt að hafa í þeim burðarlag þannig að þeir brotni ekki beinlínis niður. Þá margfaldast kostnaðurinn við úrbæturnar síðar. Ég gæti áfram talið.

Að lokum um skuldaniðurfærsluna og það sem við fáum okkur til skemmtunar við 2. umr. frumvarpsins eins og hæstv. fjármálaráðherra boðar það. Ég held að það þurfi að fara mjög vel yfir það. Þetta eru ekki neinar smáæfingar í ríkisfjármálum þegar allt í einu koma munnleg skilaboð um að það standi til 20 eða 40 milljarða tilfærslur sisona og þær koma korter fyrir 12. Hvenær verður (Forseti hringir.) 2. umr. um fjáraukalagafrumvarpið? Í byrjun desember. Þá verður ekki mikill tími til að leggjast yfir þessa stóru hluti eða eiginfjáræfingarnar í sambandi við Seðlabankann. Hvenær kemur það frumvarp? Hvaða tíma fær Alþingi til að skoða þetta? Þetta eru ekki einhver dægurmál sem við getum útkljáð á nokkrum mínútum, (Forseti hringir.) herra forseti.