144. löggjafarþing — 30. fundur,  11. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[15:42]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til fjáraukalaga 2014. Mér sýnist í fljótu bragði eftir að hafa kíkt á það að menn hafi vandað aðeins meira til verka en í síðustu fjáraukalögum þar sem mér fannst ansi margir liðir fara inn sem ekki áttu þar erindi.

Ég hafði það líka svolítið á tilfinningunni á síðasta ári að ríkisstjórnin liti þannig á að árið 2013 væri á ábyrgð fyrri ríkisstjórnar. En nú er árið 2014 og það er verðugt markmið að skila hallalausum ríkisreikningi, sem er mjög jákvætt ef það stenst.

Þó eru margir liðir þarna sem vekja athygli. Ef ég fer aðeins yfir það þá koma rannsóknarnefndir Alþingis inn á fjáraukalög og ekki í fyrsta skipti. Sótt var um 130 millj. kr. framlag vegna óleystrar fjárþarfar rannsóknarnefnda. Að hluta til er það vegna Íbúðalánasjóðsskýrslunnar en að miklu leyti er það vegna skýrslu um sparisjóðina.

Þetta er allt hið versta mál og það er eiginlega ekki hægt að samþykkja þessa beiðni á sama tíma og við á Alþingi og stjórnvöld gerum kröfu um að stofnanir haldi sig innan fjárheimilda. Við verðum að vera í fararbroddi þegar kemur að aga og fagmennsku. Að mínu viti verður að finna þessar 130 milljónir innan Alþingis. Það er ekki hægt að biðja um þetta. Það er svolítið eins og þessar skýrslur séu einhvers konar míní-útgáfa af því sem verið var að rannsaka með þeim; ábyrgðin er óljós, eftirlit með viðfangsefninu er lítið sem ekkert og mönnum virðist fyrirmunað að gera eitthvert plan og vinna eftir því. Það slær mann eins og opinn tékki á ríkissjóð og það er óásættanlegt.

Hér eru líka liðir sem ég tók eftir, meðal annars liður sem heitir Byggðaáætlun. Lagt er til að 50 millj. kr. tímabundið framlag verði veitt í eitt ár til uppbyggingar á iðnaðarsvæði og hafnarsvæði á Bíldudal. Ég geri ekki lítið úr því, það er verðugt verkefni og til þess fallið að styðja við atvinnulífið. En það á ekki heima á fjáraukalögum, það á að fara inn í fjárlög og ætti þess vegna að vera í einhvers konar byggðaverkefni, jafnvel eitthvað sem Byggðastofnun gæti haldið utan um. Þannig gætum við jafnræðis, með því að koma ekki með verkefni af þessu tagi inn í fjáraukalög. Gerum þetta bara almennilega. Ég er viss um að stuðningur væri við að veita þessu verkefni framgang.

Ég vil nefna annað sem mér finnst mjög áhugavert, það er Framkvæmdasjóður ferðamannastaða. Óskað er eftir 414 millj. kr. hækkun á þeim lið. Þar af er 384 millj. kr. framlag til uppbyggingar- og verndaraðgerða á ferðamannastöðum. Það lá ljóst fyrir þegar verið var að vinna fjárlagafrumvarpið fyrir þetta ár að allt of lítið var sett í uppbyggingu á ferðamannastöðum. Settar voru um það bil 200 millj. kr. í það verkefni. Við í minni hlutanum bentum á það í nefndaráliti að það væri ekki nógu mikið.

Væntanlega var ríkisstjórnin að bíða eftir því að einhver tillaga kæmi fram eða eitthvert fyrirkomulag á fjármögnun, svo sem eins og náttúrupassi eða hvað menn ætla að gera til að fjármagna innviði á ferðamannastöðum, með því að skattleggja ferðamennina. En því hefur seinkað og þess vegna kemur það inn í fjáraukalög. En ég held að það hafi legið alveg ljóst fyrir í desember á síðasta ári að við mundum ekki innleiða náttúrupassann í ár. Hæstv. ráðherra þess málaflokks hefur talað þannig að vanda ætti til verka og að þetta þyrfti tíma. Það er því eiginlega alveg óskiljanlegt af hverju sú upphæð sem gert var ráð fyrir fór ekki bara inn á fjárlög, en í fjárlagafrumvarpinu 2014 var framlagið lækkað um 360 millj. kr. og einungis gert ráð fyrir 216 millj. kr. í verkefnið. Það kemur mér því á óvart og ég gagnrýni að það skuli nú koma inn í fjáraukalagafrumvarpið.

Stór hluti af útgjöldunum í fjáraukalagafrumvarpinu snýr að velferðarráðuneytinu. Það er nú eins og það er, það er oft erfitt að áætla þar. Við sjáum einnig að málskostnaður í opinberum málum virðist ítrekað vanáætlaður. Þá mundi maður frekar vilja að sett yrði næg fjárhæð í fjárlögin.

Síðan eru liðir sem ég bjóst nú hálfpartinn við að sjá, eins og 30 millj. kr. beiðni Háskólans á Akureyri sem fékkst á fjárlögum 2013, en þá höfðu rannsóknarmissiri og meiri þjónusta verið skorin niður til að skólinn gæti náð endum saman. Skólinn hefur sýnt að hann fer vel með fjármuni sína og greiddi niður skuldahala sem hann hafði á bakinu. Því miður kom þetta framlag inn sem tímabundið framlag og datt svo út aftur. Mér finnst til þess vinnandi að veita það.

Rætt hefur verið um skuldabréfið og ég tek undir það sem áður hefur verið sagt, það er svolítið sérkennilegt að enn skuli ekki vera búið að samþykkja þau lög sem þarf til að sú ráðstöfun sé möguleg. Við vorum eitthvað að vesenast með þetta skuldabréf fram og til baka á síðasta ári. Það er í raun bara millifærsla úr einum vasa í annan. Það er ekki beinlínis þannig að ríkið hagnist þarna sem því nemur.

Það var líka annar liður sem vakti athygli mína, liður 08-408, Sunnuhlíð Kópavogi, þar stofnar ríkið í raun einkahlutafélag um hjúkrunarheimili. Þetta hjúkrunarheimili var í miklum rekstrarvanda og ríkið tók yfir reksturinn og stofnaði einkahlutafélag. Það er nokkuð sem við þurfum að spyrjast fyrir um í fjárlaganefnd, þ.e. hvert hafi verið markmiðið með því. Á síðan að selja það? Ætti það að vera ohf., eða hvað er í gangi hér? Ég hef skilning á því að menn séu að reyna að bjarga einhverjum málum en mér finnst við þurfa að skoða þetta nánar.

Eins og komið var inn áðan á varðandi sérgreinalæknana og samninginn sem tók gildi 1. janúar var ekki gert ráð fyrir auknum fjárheimildum af þeim sökum í frumvarpinu og útbúa átti reglugerð sem hefði haft það í för með sér að sjúklingar greiddu hærra verð eða sama verð og þeir greiddu áður. Sú reglugerð hefur ekki enn verið gefin út og þar af leiðandi tekur ríkið á sig 1,1 milljarð kr. á árinu 2013. Þó að maður geti vissulega fagnað því að sjúklingar hafi greitt lægri gjöld finnst mér það ekki vera í anda aga í ríkisfjármálum að gera þetta. Ekki var gert ráð fyrir því í fjárlögum en svo kemur það inn í fjáraukalögin. Þetta finnast mér ekki vera góð vinnubrögð þó að þannig hittist á að það hafi komið sér vel fyrir þá sjúklinga sem þurftu á þjónustunni að halda. Það hefði átt að fara inn í fjárlögin 2014.

Við munum fá nánari útskýringar á mörgum spurningum sem vakna við lestur þessa frumvarps nú í vikunni. Ég á því von á ítarlegri umræðum við 2. umr.