144. löggjafarþing — 30. fundur,  11. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[15:52]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég fagna því sannarlega að fjáraukalagafrumvarpið ber þess vott að hér sé eitthvað að rofa til og það hlýtur að vera mjög ánægjulegt. Eins og hér hefur komið fram, þá er hinn mikli bati sem frumvarpið sýnir vegna einskiptistilfærlsna eða -aðgerða eða hvaða orð er nú notað um það, en það er gott engu að síður. Það er líka ánægjulegt að útgjöldin aukast ekki jafn mikið, þó að það muni ekki miklu, og reglulegar tekjur. Ef óreglulegu tekjurnar eru taldar frá aukast útgjöldin ekki jafn mikið og hinar reglulegu tekjur. Það er ánægjulegt og ég ætla ekki að fara í einhvern samanburð um það sem einhvern tíma var, ég tel að við eigum að reyna að horfa fram á veginn í þessum efnum.

Engu að síður sýnir fjáraukalagafrumvarpið nákvæmlega áherslur ríkisstjórnarinnar vegna þess að pólitískar áherslur ríkisstjórnar birtast í fjárlögum og síðan í fjáraukalögum og þær halda hér áfram. Ég er ósammála pólitískum áherslum ríkisstjórnarinnar. Ég hafði vonað að bilið á milli okkar í þessu væri ekki jafn stórt og það virtist en það kemur alltaf betur og betur í ljós að ríkisstjórnin leggst á sveif með þeim sem betur mega sín og lætur hina vera út undan áfram.

Virðulegi forseti. Ég hlýt að verða að koma að því að af óreglulegu tekjunum eru 26 milljarðar það sem ég vil kalla æfingar með skuldabréf ríkissjóðs vegna Seðlabankans. Þetta skuldabréf var, eins og hefur komið fram fyrr í umræðunni, í raun gefið út til að bjarga Seðlabankanum frá því að fara á hausinn. Í fjárlagafrumvarpinu ætlaði fjármálaráðuneytið eða ríkisstjórnin eða fjármálaráðherra, hvernig sem við orðum það, einhliða að lækka vexti sem ríkið átti að borga um 10,7 milljarða, sem í raun hefði samsvarað peningaprentun. En auðvitað ganga slíkar æfingar ekki og þess vegna hefur þetta verið dregið til baka. Vaxtagjöld munu nú hækka um 8 milljarða á móti þeim 10,7 sem þau áttu að lækka um. Síðan er gerð þessi einhliða tekjufærsla upp á 26 milljarða vegna áformaðrar lækkunar á skuldabréfinu. En eftir því sem ég skil þetta í frumvarpinu og skýringum með því munu þessir 26 milljarðar fara í gegnum sjóðstreymi og þess vegna ekki auka rými til aukinna gjalda fyrir ríkið. Þetta samsvarar þá ekki seðlaprentun eða svo virðist mér vera og er að því leytinu kannski skiljanlegri aðferð en sú sem átti að fara eftir í fjárlagafrumvarpinu sjálfu.

Í samhengi við þessar æfingar er ekki hægt að sleppa því að minnast þess að á undanförnum vikum hafa komið fram nýjar upplýsingar um lánið fræga upp á 500 milljón evrur sem Seðlabankinn lánaði Kaupþingi á hádegi 6. október 2008 gegn veði í danska bankanum FIH. 500 milljónirnar voru hálfur gjaldeyrisvarasjóðurinn, virðulegi forseti. Nú hefur komið í ljós í fyrsta lagi að 35 milljarðar kr. tapast vegna þess að veðið stendur ekki undir skuldinni. Í öðru lagi, sem er kannski ekki síður mikilvægt, að hefðu forsvarsmenn Kaupþings vitað að bankainnstæður yrðu gerðar að forgangskröfum við skipti, eins og gert var í neyðarlögunum, hefðu þeir ekki þurft lánið og væntanlega ekki tekið það. Þetta las ég út úr grein eftir Hreiðar Má Sigurðsson í Fréttablaðinu um miðjan október. Þess vegna skiptir enn meira máli nú en fyrr, virðulegi forseti, að símtalið milli seðlabankastjórans og forsætisráðherrans um þetta lán verði gert opinbert. Og ég er ekki ein um þá skoðun, virðulegi forseti, því að tveir lögfræðingar skrifuðu grein í Fréttablaðið 31. október, það voru Ragnar Hall og Helgi Sigurðsson. Þeir ljúka grein sinni svona, með leyfi forseta:

„Það er afar áríðandi að fá þetta upplýst ef menn ætla sér á annað borð að brjóta til mergjar öll stóru málin sem tengdust hruninu 2008.“

Ég tel, virðulegi forseti, að við á Alþingi þurfum að leggja höfuðið í bleyti um það hvernig við getum fengið afrit af þessu símtali sem nefndum þingsins hefur verið neitað um.

Síðan að fjáraukalagafrumvarpinu sjálfu beint. Eins og ég sagði færir það enn heim sanninn um að ríkisstjórnin hefur hagsmuni þeirra sem betur mega sín að leiðarljósi á kostnað hinna sem minna mega sín. Og enn lækka tekjur af veiðigjaldi, nú um 1,5 milljarða frá því sem ákveðið var í fjárlögum fyrir þetta ár, 2014. Á móti lækka greiðslur til barnabóta og vaxtabætur lækka þannig að áherslurnar eru alltaf þær sömu.

Við fjárlagaumræðuna í fyrra var bent á að afgangur yrði á þeim lið sem ætlaður var til barnabóta og það var síðan ítrekað í vor í umræðu um skattalög. Hv. þm. Oddný G. Harðardóttir bar fram breytingartillögu sem gert hefði það að verkum að öll fjárhæðin sem var á fjárlögum hefði nýst til barnabóta. En hún var auðvitað felld. Nú er hið rétta komið í ljós að þarna er afgangur upp á 300 milljónir og þær renna bara beint í hítina.

Eins og vakin var athygli á í fjárlagaumræðunni og aftur í umræðunni í vor benti allt til þess að hagur barnafjölskyldna hefði versnað meira en annarra á erfiðleikaárunum eftir hrun. Í skýrslum sem síðan hafa birst, ein birtist í mars og önnur eitthvað seinna, kemur í ljós að börnum sem búa við fátækt hér á landi fjölgar og hagur þeirra versnar hlutfallslega meira en í flestum öðrum löndum. Í gær birti Hagstofan skýrslu sem sýnir að 12,2% barna búa undir lágtekjumörkum og 28,2% barna sem bjuggu í leiguhúsnæði voru á heimili undir lágtekjumörkum.

Virðulegi forseti. Þessi 28,2% barna hér á landi njóta einskis af hinni stóru millifærslu sem sumir kalla leiðréttingu, og það er mjög alvarlegt. Og núna í fjáraukalagafrumvarpinu sjáum við að afgangur verður af barnabótum eins og bent hafði verið á. Mér finnst það sannast að segja okkur sem förum með fjárveitingavaldið til skammar að vera með afgang á þeim lið á meðan 12,2% barna búa á heimilum sem eru undir lágtekjumörkum.

Vaxtabætur lækka og þær lækka um 600 milljónir. Almennar vaxtabætur eru 225 milljónum lægri en áætlað hafði verið. Það er vegna þess að nettóeign heimila hefur hækkað og sérstakar vaxtabætur vegna lánsveða voru ofáætlaðar um 375 milljónir. Þetta eru vissulega ánægjuleg tíðindi. En á sama tíma, virðulegi forseti, þegar vaxtabætur eru tekjutengdar að einhverjum hluta, er verið að ausa peningum út úr ríkissjóði til fólks sem ekki þarf á þeim að halda. Við skilum afgangi á hlutum sem eru markaðir sérstaklega fyrir þá sem verr standa, en förum svo í hina stóru millifærslu. Mér finnst þetta okkur til skammar.

Svo langar mig að minnast á það, virðulegi forseti, þetta er nú ekki mjög stór upphæð, en fjárlagaliðurinn umboðsmaður skuldara lækkar um 72 millj. kr. Orðrétt segir í greinargerðinni með fjáraukalagafrumvarpinu, með leyfi forseta:

„Tilefnið er lækkun á áætluðum kostnaði við framkvæmd laga um fjárhagsaðstoð til einstaklinga að uppfylltum tilteknum skilyrðum, en aðstoðin er fólgin í greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta.“

Þetta, virðulegi forseti, er sá hópur fólks sem telur sig í slíku öngstræti vegna skuldanna sem stökkbreyttust í verðbólguskotinu að það óskar eftir gjaldþrotaskiptum. En einungis 41% af þeim sem sóttu um til umboðsmanns skuldara hlutu náð fyrir augum hans.

Virðulegi forseti. Hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra hefur ekki enn sett reglugerð um málsmeðferð umboðsmanns skuldara og mat á fjárhagsstöðu umsækjenda eins og henni ber að gera samkvæmt lögum sem samþykkt voru í janúar sl. og tóku gildi 1. febrúar. Ég skil ekki svona stjórnsýslu. Hæstv. ráðherra var ötull talsmaður skuldugra á síðasta kjörtímabili en nú þegar hún hefur aðstöðu og völd til setur hún viðkvæmt mál af þessu tagi einfaldlega í hendurnar á umboðsmanni skuldara. Það þykir mér léleg framganga.

Í fjáraukalagafrumvarpinu birtist áfram ruglið í kringum gjaldtöku af ferðamönnum. Eins og margoft hefur komið fram var það eitt af fyrstu verkum ríkisstjórnarinnar að lækka virðisaukaskatt á gistingu og þannig afsalaði hún sér tekjum væntanlega upp á um 2 milljarða á þessu ári sökum þess hve ferðamannafjöldinn er mikill. Síðan er samþykkt á ríkisstjórnarfundi að bæta inn 380 milljónum í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Það er einfaldlega ákveðið við ríkisstjórnarborðið. Þá er sagt að það sé vegna þess að vinnu við fjármögnun hafi seinkað. Þeirri vinnu er enn ólokið og við höfum engar upplýsingar um hvert stefnir í þeim efnum. En fjáraukalög eiga, eins og sagt hefur verið hér fyrr, að vera til þess að bregðast við óvæntum útgjöldum. Það er nákvæmlega ekkert óvænt við þessi útgjöld. En miðað við viðbrögð hæstv. ráðherra, Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, við gagnrýni á þetta mætti álíta að það sé bara óþarfi að bera nokkrar fjárveitingar undir þingið á meðan ríkisstjórn er einhuga og að ríflegur meiri hluti sé á Alþingi. Virðulegi forseti, þetta er óvirðing fyrir fjárveitingavaldinu sem er Alþingi Íslendinga.

Mig langar aðeins að koma inn á umframgjöld vegna sérfræðilækna, sem hefur verið rætt hér fyrr. Þar er áætlaður 1,1 milljarður. Farið hefur verið í gegnum það hvernig sérfræðilæknar lögðu einhliða á gjaldtöku sem nú á að færa inn í reglugerð, en heilbrigðisráðherra virðist ekki hafa enst tími til þess að gera það á þessu ári. En það sem verður náttúrlega að gera vegna sérfræðilækna er að það verður að koma á tilvísanakerfi, sem sumir vilja kalla þjónustu-eitthvað af því að þeim finnst orðið tilvísanakerfi ekki nógu fallegt. Þetta verður að gera vegna þess að sérfræðilæknar eru í aðstöðu til þess að ákveða nokkuð sjálfir hver eftirspurn eftir þjónustu þeirra er. Það verður ekki komið böndum á það kerfi nema aðgangi að sérfræðilæknum verði á einhvern hátt stýrt. Það verður að gerast vegna þess að við höfum ekki efni á því að reka heilbrigðiskerfið með þeim hætti sem við gerum nú, þetta dýra kerfi.

Virðulegi forseti. Mig langar í lokin að koma að því að Landspítalinn fær enga fjármuni á fjáraukalögum. Það stefnir í 1 milljarðs halla á árinu og spítalinn á ekki að fá það bætt. 340 milljónir af þessum milljarði eru vangoldnar launabætur frá ríkinu, 210 milljónir eru vegna dýrra lyfja sem Sjúkratryggingar Íslands neita að borga og Landspítalinn hefur tekið að sér að fjármagna og mér skilst að það hafi verið gert í samráði við heilbrigðisráðuneytið. Síðan eykst alltaf eftirspurn eftir þjónustu á Landspítalanum (Forseti hringir.) vegna þess að við erum öll að verða eldri. Hef ég nú lokið máli mínu, virðulegi forseti.