144. löggjafarþing — 30. fundur,  11. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[16:38]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég hafði óskað eftir því sérstaklega að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra kæmi í salinn og hlustaði á þessa stuttu ræðu mína. Ég hef aðeins fimm mínútur til að flytja ræðu mína og ég vil síður eyða henni í að bíða eftir hæstv. ráðherra. Má ég búast við því að hann komi í salinn?

(Forseti (SilG): Þarna er ráðherrann.)

Frú forseti. Mjög margir hafa áhyggjur af því að bein greiðsluþátttaka einstaklinga í heilbrigðiskerfinu sé að aukast, meðal annars hefur ASÍ ályktað í þá veru. Menn líta auðvitað til ársins 2014 þar sem greiðsluþátttaka hefur hækkað um samanlagt 611 milljónir kr.

Í andsvörum mínum áðan við hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, þegar ég spurði hann út í það hvort búast mætti við því að gjaldskrár mundu hækka á árinu 2015, svaraði hann mér mjög kröftuglega. Ég var mjög ánægð með svör hans. Þegar ég var að tala um það hér frammi að ég hefði verið ánægð með svör hæstv. ráðherra vildu menn meina að ráðherrann hefði ekki áttað sig á því að ég væri að spyrja um árið 2015 heldur væri aðeins að staðfesta það sem er að gerast á árinu 2014. Þess vegna vonast ég til þess að hæstv. ráðherra komi hér upp aftur, annaðhvort í lok umræðunnar eða í andsvör við mig, til þess að svara þeirri spurningu hvort við eigum von á því að gjaldskrár hækki til þess að mæta kostnaði við samninga við sérgreinalækna á árinu 2015.

Þetta stendur reyndar í frumvarpi hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sem við ræðum hér, frumvarpi til fjáraukalaga. Þar er talað um á bls. 61 að gjaldskrár hafi ekki verið hækkaðar, reglugerð þess efnis hafi ekki komið fram og þess vegna þurfi að setja inn 1,1 milljarð kr. á árinu 2014 til þess að mæta þessu. Hæstv. ráðherra fagnaði því mjög að uppsett verð sérgreinalækna mundi ekki falla beint á sjúklinga við samningana, því að auðvitað ættu þeir að vera sjúklingum til góða, sérgreinalæknar ættu ekki að geta bara sett upp gjald og fengið það í gegn í samningum og það mundi falla beint á sjúka í skjóli ríkisins.

Á bls. 61 stendur með leyfi forseta:

„Í forsendum fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2015 er gert ráð fyrir að þessi reglugerð“ — sem ég nefndi áðan — „verði að fullu komin til framkvæmda þannig að ekki verði um að ræða umframútgjöld í sérfræðilækniskostnaði sjúkratrygginga vegna þessa á næsta ári.“

Í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2015 er því gert ráð fyrir að sjúklingar beri kostnaðinn við kjarasamninga eða samninga við sérgreinalækna að fullu. Ég lýsi yfir miklum áhyggjum af því og tengi við þá hækkun sem hefur verið staðfest á árinu 2014. Ég held að hún geti nefnilega orðið til þess að auka misskiptingu í landinu og geti haft áhrif á það hvort fólk leiti sér lækninga, kaupi nauðsynleg lyf eða hjálpartæki.

Ég fagna því að á árinu 2014 hafi greiðsluhlutdeild eða greiðsluþátttaka sjúkra lækkað, þ.e. greiðsluþátttaka þeirra sem hafa þurft að sækja sér sérfræðilæknisaðstoð. Ég vona svo sannarlega að hún muni ekki aukast á árinu 2015, en bið hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra að koma inn á þetta í lok umræðunnar og fara yfir það hvernig fjármögnun samningsins er hugsuð á árinu 2015.