144. löggjafarþing — 30. fundur,  11. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[16:43]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það verður að segjast eins og er að þetta mál virðist vera dálítið flóknara fyrir marga en efni standa kannski til. Þá er ég ekki að vísa í orð hv. þingmanns hér, ég er bara að vísa í hina almennu umræðu. Þegar samningar um sérfræðilæknana féllu úr gildi var gjaldskráin gagnvart sjúklingunum í raun og veru óvirk. Sérfræðilæknar innheimtu gjald af sjúklingum eftir eigin höfði í nokkur ár.

Þegar samningar takast að nýju við sérfræðilækna tekur aftur gildi ástand þar sem sett er þak á þátttöku sjúklinga með reglugerð úr heilbrigðisráðuneytinu eða velferðarráðuneytinu. Þátttakan hækkaði miðað við það sem áður hafði verið, en í því sambandi verður að hafa í huga að engin gjaldskrá hafði í raun gilt í nokkur ár. Þess vegna er hækkunin í almennri umræðu oft talin til merkis um að hér séu gjöld á sjúklinga að hækka.

En jafnvel þótt gjaldskráin hafi hækkað frá því sem áður var er gjaldið sem er tekið af sjúklingum lægra en það sem læknarnir höfðu tekið í samningsleysinu. Þetta þýðir með öðrum orðum að verði gjaldskráin hækkuð til fulls, þ.e. til jafns við það sem sjúklingar höfðu verið að greiða sérfræðilæknum í samningsleysinu, er raunhækkun á sjúklinga engin. Þetta er það sem heilbrigðisráðherra gerir ráð fyrir að gerist á næsta ári, að gjaldskráin hækki og við það verði raunkostnaður sjúklinga hinn sami og var í samningsleysinu. En á þessu ári tekur ríkissjóður mismuninn, (Forseti hringir.) sem þýðir raunlækkun fyrir sjúklinga.