144. löggjafarþing — 30. fundur,  11. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[16:45]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir andsvarið. Mér finnst þetta ekki neitt flókið svo að það sé nú sagt hér og vona að hæstv. ráðherra hafi ekki verið að beina því til mín að ég skildi ekki svona kúnstir.

Hæstv. ráðherra talaði alveg skýrt. Hann er að segja að á árinu 2015 muni sjúklingar bera kostnaðinn við samninginn, eins og alltaf var gert ráð fyrir, enda stendur á bls. 61 í frumvarpi hæstv. ráðherra:

„Við ákvörðun um gerð samningsins var gengið út frá þeirri grundvallarforsendu að hann leiddi ekki til aukinna útgjalda fyrir ríkissjóð heldur mundi kostnaðarhlutdeild sjúklinga sem dregst frá ríkisframlaginu verða hækkuð með breytingum á reglugerð þannig að hún yrði óbreytt hlutfall frá árinu 2013 eða um 42%. Sjúklingar yrðu þannig jafn settir og áður …“

Samningurinn við sérgreinalækna átti því ekki að vera til hagsbóta fyrir sjúklinga heldur áttu þeir að bera hann að fullu uppi. Það var hins vegar ekki gert vegna þess að reglugerðinni var ekki breytt, henni var að vísu breytt lítillega um mitt ár en ekki að fullu. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra að það var ekki gert og að sjúklingar þurftu ekki að bera þetta að fullu. En auðvitað er það ósanngjarnt að sjúklingar hafi þurft að borga uppsett verð í samningsleysinu eins og hæstv ráðherra bendir á. Þess vegna hefði samningurinn átt að vera til hagsbóta fyrir sjúkratryggða, að þeir hefðu hag af samningi sem ríkið gerði, en svo virðist ekki vera. Þeir eiga að bera hann (Forseti hringir.) að fullu uppi.