144. löggjafarþing — 30. fundur,  11. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[16:51]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Hér í umræðu um fjáraukalög fyrir árið 2014 hefur margt athyglisvert komið fram, til dæmis nokkrir jákvæðir punktar, sem betur fer, í okkar efnahagslífi. Við sjáum batamerki hjá ríkissjóði hvað það varðar, sem er gott. Það gerist í framhaldi af erfiðleikaárunum sem við höfum gengið í gegnum frá hruninu 2008. Í fjáraukalagafrumvarpi er meðal annars talað um að þetta sé byggt á samningnum sem íslenska ríkið, þáverandi ríkisstjórn, gerði við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Það er sannarlega fagnaðarefni að fjárlög skuli vera afgreidd með jákvæðri afkomu, alveg eins og það er gott að við sjáum við álagningu lögaðila og við álagningu á einstaklinga að tekjur ríkissjóðs eru að batna vegna meiri umsvifa í landinu og í efnahagslífi, það er hið besta mál.

Það var auðvitað það sem við stefndum öll að, ég segi það fyrir mitt leyti sem stjórnarþingmaður á síðasta kjörtímabili. Þá þurftum við að taka margar vondar ákvarðanir, oft og tíðum með óbragð í munni, um skattahækkanir og niðurskurð, meðal annars í velferðarþjónustunni. Það var alltaf vitað mál að þegar staðan færi að batna, eins og er að gerast núna, þyrfti að skila einhverju af því til baka án þess að því yrði sleppt að reyna að vinna á fjárlagahallanum eins og ég gat um áðan.

Þetta með tekjustofnana og ýmislegt fleira, í stóra skattinum, í stóru tekjunum eins og virðisaukaskattinum o.fl., er gott. En jafnframt er að reka á fjörur hæstv. ríkisstjórnar hálfgerðan lottóvinning eða allt að því víkingalottóvinning sem kemur hér fram; og hæstv. ráðherra hefur réttilega talað um sem einskiptisaðgerð. Þá á ég auðvitað við að stærsti hlutinn af batnandi afkomu, sem sett er fram í fjáraukalagafrumvarpinu, kemur í gegnum arðgreiðslur fjármálafyrirtækja; 19,5 milljarðar kr. og lækkun á Seðlabankabréfinu upp á 26 milljarða kr. En við skulum hafa það í huga að aukin útgjöld eru 6,1 milljarður kr., fjármagnstekjuskattur ríkisins er 2,8 milljarðar, þannig að að öllu þessu samanlögðu er afkomubatinn, ef horft er fram hjá óreglulegum liðum, einungis 1,7 milljarðar kr. Það er staðan sem vert er að hafa í huga.

Með því sem hér er verið að tala um kemur inn, eins og sýnt er í frumvarpinu, ýmislegt sem vonandi er jákvætt, t.d. eins og það að atvinnuleysi sé að minnka, að framlag til Atvinnuleysistryggingasjóðs megi skerða um rúman milljarð. Án þess að hafa farið nákvæmlega í gegnum það þá vona ég að það sé ekki eingöngu vegna þess að bótatímann sé verið að stytta og leggja meira yfir á herðar sveitarfélaganna það sem þar er gert.

Hér má líka sjá tæpan milljarð sem er lækkun framlaga til barnabóta upp á 300 milljónir og vaxtabóta upp á 600 milljónir. Má auðvitað spyrja sig að því hvort sú upphæð hefði frekar átt að renna til þeirra sem þurfa sannarlega á því að halda. Það eru auðvitað barnmargar fjölskyldur láglaunafólks og vaxtabætur til þeirra sem greiða mikla vexti. Auðvitað kemur skuldaleiðréttingin þar á móti þannig að við skulum hafa það í huga.

Það er ýmislegt fleira sem við sjáum í þessu eins og hækkun til sjúkratrygginga upp á rúman milljarð. Þegar öllu er á botninn hvolft er þetta afkomubati upp á 1,7 milljarða kr. með þeim lottóvinningum sem ég talaði hér um, sem eru hátt í 45 milljarðar kr., þ.e. arðgreiðslur frá bönkum og fjármálafyrirtækjum og Seðlabankaskuldabréfið.

Virðulegi forseti. Það eru nokkrir þættir sem ég vil spyrja hæstv. fjármálaráðherra út í — og ég þakka fyrir að hann situr hér, sem er annað en segja má um fulltrúa stjórnarmeirihlutans í fjárlaganefnd. Ég sakna þess mjög að þeir skuli ekki vera við þessa umræðu, að ekki sé talað um að þeir skuli ekki taka þátt í umræðunni svo að við getum átt skoðanaskipti um fjáraukalagafrumvarpið við 1. umr. Málið er flutt af hæstv. ráðherra en venjan hefur verið sú að fjárlaganefndarmenn hafi verið hér og fylgst með og farið í gegnum það. Þó svo að nokkrir nefndarmenn úr minni hlutanum hafi gert það, þá verð ég að segja eins og er að ef fyrstu tvær til þrjár umræðurnar eru skildar frá hefur ekki sést til stjórnarmeirihlutans. Það er slæmt vegna þess að að mínu mati þurfa nefndarmenn að hlusta á umræður þingmanna og ráðherra og andsvör og annað slíkt til að fara í gegnum.

Ef ég nefni hér nokkur atriði sem ég hefði viljað sjá með aukin útgjöld þá nefni ég fyrst Landspítalann. Komið hefur fram í umræðum að halli hans sé 1 milljarður kr. á þessu ári ef ekkert verði að gert. Það er miður og þegar við tölum um halla upp á 1 milljarð kr. er það vegna mikils niðurskurðar — og þakka ég nú fyrir að fjárlaganefndarmenn úr stjórnarmeirihlutanum streyma hér í salinn (ÁsmD: Og búin að vera í allan dag.) og hefur fjölgað mikið, (ValG: Og búin að vera hér allan tímann.) (Gripið fram í: Greinilega.) en ekki taka þeir þátt í umræðunni.

Ég var að tala um Landspítalann sem stefnir í milljarðs kr. halla á þessu ári ef ekkert verður gert. Ég spyr hæstv. ráðherra: Á það virkilega að ganga eftir? Eða er það eins og margt sem greinilega er boðað hér í fjáraukalagatillögunni að það er sett fram miðað við dagsetningar og það er sett fram þegar þetta er prentað að það bíður fjárlaganefndar að lagfæra það? Er það svo, virðulegi forseti? Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra: Er ætlast til þess að fjárlaganefnd lagfæri þetta hvað varðar Landspítalann?

Ég ætla ekki að ræða um mikið hjartans mál mitt, sem ég hef mikinn áhuga á, sem er nýbygging Landspítalans, vegna þess að ég tel að þar þurfi að koma til peningar frá ríkissjóði þó ekki væri nema við fjárlög 2015 til næsta árs til að halda áfram með hönnun og undirbúning að byggingu meðferðarkjarnans sem við höfum svo oft rætt um.

Að auki vil ég nefna Vegagerðina. Hér er boðaður frekari niðurskurður með millifærslu af framkvæmdalið Vegagerðarinnar og yfir á þjónustuliði sem, eins og kemur fram í frumvarpinu, hafa verið vanáætlaðir lengi og hafa kostað meira en við höfum sett inn, sem er meðal annars út af breyttu veðurfari og aukinni þjónustu og auknum kröfum um öryggisþætti til dæmis hvað það varðar að hálkuverja. En hér er nýtt atriði, það er tekið af framkvæmdalið sem ekki var mikið fyrir á. Þannig að ég get ekki séð annað — og enn þá verð ég að þakka fyrir að fleiri stjórnarliðar koma hér til að hlusta á umræður um fjáraukalögin. (Gripið fram í: Við höfum verið hér.)

Ég var að tala um Vegagerðina. Mér finnst það miður á þessum tíma og miðað við stöðuna eins og hún er — hin síðari ár hefur aldrei eins lítið verið veitt til framkvæmda hjá Vegagerðinni og raun ber vitni. Mér kemur það reyndar mjög á óvart það sem stendur í fjáraukalagafrumvarpinu að 1,8 milljarðar kr. hafi verið ónotaðir vegna framkvæmda; ég man ekki hvort það var um síðustu áramót eða þarsíðustu. Ég spyr mig að því, vegna þess að ég þekki það vel til áhuga Vegagerðarinnar á að framkvæma fyrir það fé sem veitt er, hvort þeir hafi fengið skilaboð frá hæstv. ríkisstjórn um að halda að sér höndum við útboð og framkvæmdir og skera svo mikið niður sem raun ber vitni. Sama má segja um hafnir og flugvelli.

Virðulegi forseti. Þar að auki eru annað skiptið í röð teknar 850 millj. kr. af framkvæmdafé Vegagerðarinnar og lagðar inn á reikning í ríkissjóði til að jafna það sem þar er kallað „skuld“ og hefur ævinlega verið svo langt sem elstu menn muna.

Að lokum vil ég nefna menntakerfið, háskóla og framhaldsskóla. Þingflokkur Samfylkingarinnar átti mjög góðan fund með yfirstjórn Háskóla Íslands í gær og við sáum þar að á næsta ári er boðuð hækkun á framlagi á hvern nemanda. Við sáum það í leiðinni að síðan eru nemendaígildi skorin niður. Þetta er sama aðferð og svo mikið var rætt við okkur um í kjördæmavikunni um framhaldsskólana. Nemendaígildisstuðlarnir eru hækkaðir en nemendaígildunum er fækkað, þannig að niðurstaðan er sú að skólarnir koma út í miklum mínus. Þetta er aðferð sem mér hugnast ekki og mér sýnist hæstv. menntamálaráðherra vera að nota þá aðferð að gefa með vinstri og taka með hægri og út úr því kemur verri staða.

Virðulegi forseti. Það er ekkert nýtt að hægt hafi verið að ná hallalausum fjárlögum. Við hefðum getað gert það einum til tveimur árum fyrr, kannski á síðasta ári síðustu ríkisstjórnar, jafnvel tveimur síðustu, ef menn hefðu gengið eins harkalega fram og raun ber vitni í niðurskurði til ýmissa grundvallarstofnana samfélagsins.

Þá kemur að því að ég vil nota þetta tækifæri við 1. umr. þessa fjáraukalagafrumvarps og spyrja hæstv. fjármálaráðherra, ef hann getur svarað mér með það, út í Háskólann á Akureyri. Þessi mikilvæga stofnun hefur gjörbreytt ýmsu á Akureyri og á landsbyggðinni og er, eins og maður segir stundum, stærsta og besta byggðamál sem farið hefur verið í í háa herrans tíð. Það stefnir í 40 til 50 millj. kr. halla á árinu 2014. Þetta ræddu háskólayfirvöld við okkur þingmenn Norðausturkjördæmis í kjördæmavikunni. Stærstur hlutinn er vegna þess að 30 millj. kr. tekjuliður var felldur niður á fjárlögum 2014.

Nú er það spurning mín til hæstv. fjármálaráðherra og eftir atvikum til þeirra sem stýra fjárlaganefnd og hafa verið að ganga hér fyrir framan ræðustólinn hjá mér en eru ekki í salnum, ef þeir geta svarað því: Samkvæmt þeim upplýsingum sem við fengum á Akureyri vildu þeir telja að þetta hefðu verið mistök, vegna þess að þetta gerðist við 3. umr. fjárlaga í desember sl. Þá datt þetta bara niður, að mér fannst í einhverju óðagoti fjárlaganefndar við niðurskurð og fleiri atriði.

Af því hv. formaður fjárlaganefndar, Vigdís Hauksdóttir, situr hér í hliðarsal og heyrir mál mitt, vil ég líka beina þessari spurningu til hv. þingmanns: Voru það mistök eða hvað gerðist með þessar 30 millj. kr. sem skipta svo miklu máli gagnvart fjárlagaárinu 2014? Eða var það viljandi gert? Og af hverju í ósköpunum er það þá ekki sett inn núna í fjáraukalagafrumvarpið?

Þetta er spurning mín til hæstv. fjármálaráðherra: Hvers vegna datt þessi fjárlagabeiðni frá Háskólanum á Akureyri um þessar 30 milljónir, sem voru inni 2013, fékkst þá og sett inn, datt út á síðustu stundu 2014? Voru það mistök eða var það viljandi?

Ef þetta kemur ekki inn vegna 2014 þá verður hallinn meiri en nú er. Þá er ekkert hægt að gera annað hjá Háskólanum á Akureyri en fara að skera niður, loka námsbrautum, draga úr rannsóknum, minnka stoðþjónustu og fara jafnvel að segja upp fólki. Er það það sem við viljum í þessu sambandi? Nei, segi ég, hiklaust. Það á að halda áfram með skólann eins og er og helst að bæta í. Það er hluti af því sem við höfum verið að tala um að þurfi að skila. Þar að auki vantar meiri pening fyrir 2015 en ég ætla ekki að ræða það hér og nú.

Spurningar mínar, þessar þrjár, hafa verið til hæstv. fjármálaráðherra. Um leið og ég þakka fyrir, sem á auðvitað ekki að þurfa að gera, en það er alltaf virðingarvert, að fjármálaráðherra skuli sitja yfir umræðu á sínum eigin frumvörpum og svara spurningum þingmanna eins og spurningum mínum hér. Við 2. umr. vilja ráðherrarnir ekki vera viðstaddir vegna þess að þá er frumvarpið í umboði viðkomandi nefndar og þeirra manna sem stýra henni og sitja í henni. Þetta er ágætisvinnulag og hefur verið viðhaft um langa tíð en er svolítið, að því er mér finnst, að breytast, ekki allt saman til batnaðar.