144. löggjafarþing — 30. fundur,  11. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[17:07]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst svo sem ekkert sérstakt koma hér fram í andsvari hæstv. ráðherra við mig og ekki beint svör við spurningum, en hann kom þó inn á einn þáttinn sem ég spurði um sem var Landspítalinn.

Já, ég tek undir það, það á ekki að vera fordæmi eða áskrift að því að sjálfkrafa sé bætt í fjáraukalagafrumvarpið ef stofnanir eru reknar með halla. En ég er alveg viss um það, virðulegi forseti, hvað varðar Landspítalann, þessa höfuðstofnun heilbrigðismála á Íslandi, að meðal annars vegna þess að við þurftum að ganga svo harkalega fram á erfiðleikaárum okkar, skera óhóflega mikið niður, eru menn ekki farnir að rétta við. Inn í þetta blandast auðvitað ýmsir kjarasamningar sem hafa verið gerðir, þar á meðal jafnlaunasamningar sem svo voru kallaðir, sem þarf að bæta spítalanum að fullu o.s.frv.

Virðulegi forseti. Það kemur hér fram og kom fram í umræðu áðan að svo virðist vera sem Landspítalinn sé núna að taka á sig kostnað, og hann getur auðvitað ekki annað, vegna dýrra lyfja vegna þess að Sjúkratryggingar Íslands hafa neitað að borga þau. Samt sem áður sýndist mér lyfjaliðurinn hjá Sjúkratryggingum vera í plús. Það eru svona atriði, virðulegi forseti, sem þarf að taka á hér. Ég hika ekki við að halda því fram að Landspítalanum þarf að bæta þær upphæðir sem vantar og valda núna halla vegna þess að mér finnst alltaf að það sé fullkomin sátt hér á Alþingi um að við ætlum að reka gott heilbrigðiskerfi. Nú erum við bara að ganga í það að skila meiru til baka af því sem tekið var og rétta reksturinn frekar að því sem þörf okkar Íslendinga er. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra aftur, virðulegi forseti, vegna þess að löngu er búið að vinna frumvarpið og prenta það, maður þekkir þetta ferli: Er það meiningin að fjárlaganefnd hafi í sínum störfum heimild til að bæta um hvað varðar rekstur Landspítalans?