144. löggjafarþing — 30. fundur,  11. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[17:09]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég kýs að líta frekar þannig á málið að verkefnið sé fyrir fjárlaganefnd að skoða næsta ár, að skoða hvort fjárheimildir fyrir árið 2015 séu fullnægjandi til þess að mæta þörfum á Landspítalanum. Jafnframt sé það verkefni nefndarinnar að spyrja spurninga um það hvers vegna spítalinn heldur sig ekki innan fjárheimilda eins og allir eiga að gera á yfirstandandi ári. Það verði síðan verkefni okkar þegar við göngum frá lokafjárlögum og eftir atvikum inn í næstu ár hvað við eigum að gera við eldri halla spítalans. Í sjálfu sér gerist ekki annað en spítalinn er með halla í árslok. Það þarf enginn að hafa áhyggjur af því að reikningar verði ekki greiddir, þetta er allt saman fært til bókar og uppgert. Það er ekki rétta leiðin í mínum huga í svona tilviki að taka þennan halla inn í fjáraukalögin. En þetta gefur tilefni til að spyrja sig að því hvort fjárheimildir á næsta ári séu fullnægjandi.

Ég fagna umræðu um stöðu Landspítalans og heilbrigðiskerfisins. Það er alveg skýrt að fjárheimildir til Landspítalans hafa aldrei verið hærri. Það er líka rétt hjá hv. þingmanni að niðurskurðurinn undanfarin ár, sem uppsafnaður er gríðarlega mikill á Landspítalanum, hann var á bilinu 3,5–5milljarðar á árunum eftir hrunið, er í raun rót þess vanda sem við horfum upp á í dag, aðhaldið á undanförnum árum fylgir spítalanum. Mörg hundruð manns var sagt upp og ýtrasta aðhalds gætt svo víða. Spítalinn líður á sinn hátt enn fyrir þann tíma. Þannig að jafnvel þótt við höfum bætt í fjárheimildir og erum komin fram úr því sem áður hefur verið finna menn enn þá fyrir því mikla aðhaldi sem hefur verið á undanförnum árum.