144. löggjafarþing — 30. fundur,  11. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[17:24]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir margt af því sem hæstv. fjármálaráðherra ræddi hér varðandi þetta ár og fjáraukalög sem koma óvenjuseint fram og lifir ekki mikið eftir af árinu þegar búið verður að samþykkja þau. En mér þótti líka afar athyglisvert það sem hann var að tala um með skatta á lögaðila o.fl. sem vonandi halda styrk sínum til ársins 2015; og að áframhaldandi uppsveifla verði í atvinnulífinu og í íslensku efnahagslífi sem gefi ríkissjóði sinn skammt af þeim tekjum sem myndast og eru í þjóðfélaginu.

Þá kemur að því sem hæstv. ráðherra var líka að tala um, og ég gerði að umtalsefni í ræðu minni, sem er aðhald undanfarin ár, eins og t.d. á Landspítalanum. Þá ætla ég rétt að vona að núverandi hæstv. ríkisstjórn hafi sömu stefnu og við höfðum í síðustu ríkisstjórn. Við vorum með blóði, svita og tárum að skera niður og hækka skatta. Það var alltaf áform okkar að þegar færi að ganga betur yrði þessu skilað inn. Þess vegna tek ég undir það sem mér finnst hæstv. ráðherra hafa verið að tala um og vona að hann sé sömu skoðunar og við vorum, að það verði gefið í fyrir árið 2015 hvað varðar ýmsan rekstur eins og í heilbrigðiskerfinu og í skólamálum. Það er vá fyrir dyrum hvað þetta varðar ef ekki verður gefið í, bæði í skólakerfinu og sérstaklega á Landspítalanum.

Svo ætla ég alveg sérstaklega að taka undir það vegna þess að ég er algjörlega sammála — og hef sagt það hér við flutning þingsályktunartillögu, sem ég stend að, varðandi Landspítalann um að skipa þverpólitíska nefnd og skapa þverpólitíska sátt — því sem hæstv. ráðherra sagði um hönnun á meðferðarkjarnanum: Að mínu mati þarf 500 millj. kr. á næsta ári til að halda áfram að vinna við hönnun meðferðarkjarnans þannig að við gætum kannski byrjað að byggja hann í lok næsta árs sem væri eðlilegt miðað við (Forseti hringir.) þann tíma sem fullnaðarhönnun tekur. Það þótti mér gott vegna þess að hann tekur undir það. (Forseti hringir.) Ég geymi frekari spurningar fram í seinna andsvar.