144. löggjafarþing — 30. fundur,  11. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[17:26]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það fer ekkert frá okkur það verkefni að halda áfram að styrkja heilbrigðismálin, Landspítalann og aðrar heilbrigðisstofnanir víða um landið. Hvað varðar stöðuna þar sérstaklega, sem hv. þingmaður hefur verið að ræða hér í dag, er það mín upplifun, ég skal ekkert segja hvað er endilega nákvæmt og rétt í því, að það sé tilfinningin vegna niðurskurðar undanfarinna ára, sem hefur verið umtalsverður og ég hef aðeins rætt hér í dag, sem er að brjótast fram í umræðunni í dag. Þar með fer kannski fyrir lítið sú aukning á fjárframlögum sem hefur komið fram á síðasta og þessu ári til spítalans. En líkt og ég hef bent á eru framlög til Landspítalans þau hæstu sem þau hafa nokkru sinni verið á yfirstandandi ári. Af umræðunni mætti ætla að það væri verið að skera niður á Landspítalanum. Það er ekki þannig. Þeim botni var náð fyrir einhverjum árum.

Í skólamálunum — já, hv. þingmaður ræðir gjarnan um þau hér og það er hægt að taka undir það með hv. þingmanni að við getum ekki þrengt mikið meira að skólanum án þess að það fari beinlínis að bitna harkalega á gæðum námsins og að þessu þarf að gæta. En við skulum líka hafa hugfast að jafnvel þótt hagur ríkisins sé eitthvað að vænkast á þessu og næsta ári og mögulega til lengri tíma þarf að vanda sig gríðarlega við forgangsröðun þeirra útgjaldatilefna sem við (Forseti hringir.) viljum ræða.