144. löggjafarþing — 31. fundur,  12. nóv. 2014.

mælendaskrá í umræðu um störf þingsins.

[15:03]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Næsti liður eru störf þingsins þar sem þingmenn geta komið og fengið tvær mínútur til þess að ræða ýmis mál í samfélaginu, beina spurningum hver til annars og formanna nefnda og slíkt. Andi þeirra vinnureglna sem forseti starfar eftir var þannig að ekki þurfti að skrá sig kl. 8 á morgnana heldur við upphaf þingfundar. Í vinnureglum forseta um stjórn þingfunda segir að ef margir biðja um orðið í einu í upphafi umræðunnar raði forseti á mælendaskrá þannig að þingflokkar skiptist á eftir föngum.

Það er vanalega ekki vandamál, en það skiptir sérstaklega miklu máli í dag þegar stjórnarliðar hafa 11 af þeim 15 tækifærum sem í boði eru til þess að koma hér upp og tala, á meðan þingmenn minni hlutans hafa ekki sama tækifæri. Og þingmenn Pírata eiga ekki sæti í þessari umræðu, sem er bagalegt. Ég vil því spyrja forseta: Er það ekki nokkuð sem við þurfum að laga? Getur forsætisnefnd ekki tekið það mál upp ef ég mundi leggja það til á næsta fundi forsætisnefndar að við löguðum þess reglu til þess að andi þessara reglna sé sá að allir þingflokkar (Forseti hringir.) fái að komast að í mikilvægri umræðu eins og þeirri sem mun eiga sér stað núna rétt á eftir? (BirgJ: Heyr, heyr.)