144. löggjafarþing — 31. fundur,  12. nóv. 2014.

störf þingsins.

[15:08]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegi forseti. Á heimasíðu þjóðkirkjunnar má finna falleg einkunnarorð: Biðjandi, boðandi, þjónandi. Nýlega rakst ég á grein ætlaða forustufólki bæði í stjórnmálum og atvinnulífi og víðar þar sem þungamiðjan var einmitt þessi sömu einkunnarorð. Enn fremur var haldin ráðstefna í Háskólanum á Bifröst með þessari yfirskrift.

Um er að ræða hugmyndafræði sem varpar nýju ljósi á kenningar í stjórnun og leiðtogafræðum. Helstu einkenni hennar eru að leiðtogar verða að hafa einlægan áhuga á högum annarra, innri styrk og framtíðarsýn sem síðan skapar þeim sama leiðtoga forskot til forustu og árangurs. Höfundar hugmyndafræðinnar, Robert Greenleaf, segir að forustumenn og leiðtogar í dag nýti ekki tækifærin til að mæta þörfum einstaklinga til að bæta samfélagið. Hlutverk stjórnanda sé að vera þjónn sem sýni samferðafólki umhyggju og hafi frelsi og hagsmuni samferðafólksins í öndvegi. Allt of margir stjórnendur líti á sig sem alvitrar hetjur og sú breytni haldi aftur af starfsmönnum.

Ef íslenskur vinnumarkaður tileinkaði sér hugmyndafræði hinnar þjónandi forustu mundi starfsfólk almennt njóta sín mun betur, árangur starfanna verða meiri og framleiðni ykist. Stjórnunarstíll einráðra yfirmanna er úrelt fyrirbrigði sem virkar ekki í nútímasamfélagi. Með þetta í huga vil ég beina þessum orðum einnig til okkar stjórnmálamanna og stjórnmálaleiðtoga.