144. löggjafarþing — 31. fundur,  12. nóv. 2014.

störf þingsins.

[15:19]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Nú er rannsókn í lekamálinu svokallaða lokið og dómur hefur fallið. Í tilefni af því tel ég mig knúna til að vitna í orð innanríkisráðherra sem hún lét falla á þingi, fyrst í sérstakri umræðu 27. janúar síðastliðinn, með leyfi forseta:

„Og já, það læðist að manni sá grunur, þegar það er alveg sama á hvaða vettvangi er upplýst um málið, sama hversu oft er upplýst um það og það sé komið í kæruferli og menn halda samt áfram með ásakanirnar, að málið snúist um eitthvað allt annað en trúnaðarupplýsingar gagnvart hælisleitendum. Það snúist um pólitík, það snúist um að koma í veg fyrir að ráðuneytið geti með trúverðugum hætti unnið að þessum mikilvægu málefnum og það snúist um að koma í veg fyrir að sá ráðherra sem hér stendur geti innleitt breytingar sem sannarlega er ágreiningur um. Já, það læðist að manni sá grunur að málið snúist um það.

Síðar, þann 6. maí, segir ráðherrann í fyrirspurn hér á þingi, með leyfi forseta:

„Ég endurtek það sem ég hef áður sagt um þetta mál og það er orðið flókið og snúið og menn geta reynt að halda því fram að hér sé ekki á ferðinni pólitískur spuni. Ég er þeirrar skoðunar að það sé búið að vera þannig lengi. Ég er reyndar þeirrar skoðunar, og mun ekki úttala mig um það fyrr en rannsókn er lokið, að þetta sé meira en pólitískur spuni, að þetta sé talsvert ljótur pólitískur leikur.“

Forseti. Ég held að við verðum að fá skýringu núna frá ráðherranum á því hvað hún átti við. Hvað var hún að ásaka okkur um sem spurðum ítrekað um þetta mál? Hver var hinn ljóti pólitíski leikur? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)