144. löggjafarþing — 31. fundur,  12. nóv. 2014.

störf þingsins.

[15:22]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Það er ómögulegt og ömurlegt að hlusta á þá dómadags- og svartnættisumræðu um niðurfellingu skulda 90 þús. heimila í landinu, sem minni hlutinn hefur staðið fyrir í þessum sal og í fjölmiðlum síðustu daga.

Aðeins 19 mánuðum eftir að ríkisstjórnin tók við völdum er búið að leiðrétta og niðurfæra skuldir 90 þús. heimila í landinu. Það hlýtur að vera mikill sigur fyrir ríkisstjórnarflokkana að hafa náð að ljúka þessu stóra máli á svo skömmum tíma. Það er gríðarlega mikið mál.

Á síðasta kjörtímabili sagði þáverandi ríkisstjórn: Það verður ekki meira gert fyrir heimilin í landinu. Samt höfðu tæplega 100 þús. heimili engar bætur fengið.

Við hljótum að geta sameinast um að þetta sé réttlætismál. 75% þeirra 80 milljarða sem fara í niðurgreiðslu á skuldum heimilanna fara til einstaklinga sem skulda 7 milljónir eða minna og hjóna sem skulda 16 milljónir eða minna. Í ljósi þess er enn ömurlegra að hlusta á það þegar talað er um að yfir 30% af þessum niðurfellingum fari til ríkra einstaklinga í landinu. Það er ömurlegt að hlusta á þann málflutning. Það er ekki samboðið þinginu að það skuli gerast.

Jákvæð verk ríkisstjórnarinnar líta dagsins ljós hvarvetna í samfélaginu þegar hagvöxtur eykst, kaupmáttur eykst og velferð er að verða meiri. Það er auðvitað verkefni okkar allra að stuðla að því og við skulum reyna að gera það á jákvæðan og skynsamlegan hátt.