144. löggjafarþing — 31. fundur,  12. nóv. 2014.

störf þingsins.

[15:23]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Það er ekki hægt að krefjast þess að við ræðum málin á jákvæðan hátt þegar menn bera fram ósannindi (Gripið fram í: Nákvæmlega.) úr ræðustól. (Gripið fram í: Heyr, heyr!) Þegar menn tala um að sagt hafi verið fyrir fjórum árum að ekki yrði meira að gert er það hárrétt. Það voru tveir aðilar sem sögðu það, Jóhanna Sigurðardóttir og Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokks. Hvað liðu margar vikur þangað til við sögðum skýrt: Það er ekki nóg að gert og það verður gert meira? Meira var gert.

Ég bið ykkur bara að lesa skýrsluna um skuldaleiðréttingar sem þið, hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans, fluttuð hér á haustþingi. Það er varla verið að ljúga þar um aðgerðir fyrri ríkisstjórnar enda kemur það fram á hverjum leiðréttingarseðli að dregið var frá vegna vaxtabóta, dregið frá vegna þessa og hins sem fyrri ríkisstjórn ákvað.

Höldum okkur við sannleikann og jákvæðnina þar.

Hér var vitnað í réttlæti — réttlæti, réttlæti. Réttlæti þessarar ríkisstjórnar er svo mikið að 200 manns duttu út úr túlkaþjónustu í byrjun október. Það kostar 4–6 milljónir að klára til jóla þannig að þeir geti farið með túlka inn á vinnustaði sína og notið þjónustunnar til ársloka. Það eru ekki til peningar. Hvar er réttlætið, hv. þm. Ásmundur Friðriksson? Af hverju eru menn ekki að berjast fyrir þessu?

Ég er búinn að flytja bókun í hv. allsherjar- og menntamálanefnd þar sem ég skora á Alþingi að taka þetta mál og gefa tilkynningu strax um að þetta verði borgað og að við mætum því í fjáraukalögunum þannig að fólkið þurfi ekki að bíða. Það er búið að boða jólaboð hjá Fjólu, sem er félag þeirra sem eru með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu, og félagsmenn geta ekki talað saman. Þeir geta ekki notið þeirra atriða sem þar á að ræða vegna þess að það er ekki borguð túlkaþjónusta nema þeir fari að leggja út tugi þúsunda persónulega. Þetta er mælikvarðinn á gott samfélag eða slæmt.

Tökum höndum saman, við sem hér erum, og bætum úr þessu eigi síðar en strax. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)