144. löggjafarþing — 31. fundur,  12. nóv. 2014.

störf þingsins.

[15:27]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er vissulega hægt að gleðjast yfir því að einhver heimili hafi fengið leiðréttingu lána sinna, heimili sem eiga í miklum vanda. Það vakna samt hjá manni ýmsar spurningar um hvort þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar í skuldaleiðréttingu séu ekki eins og að pissa í skóinn sinn. Öll heimili landsins urðu fyrir forsendubresti, ekki bara þau heimili sem skulduðu fasteignalán.

25% landsmanna eru í leiguhúsnæði. Aldraðir, öryrkjar og námsmenn, lágtekjufólk sem átti ekki eignir en þurfti að framfleyta sér og varð fyrir forsendubresti, allt eru þetta hópar sem urðu fyrir forsendubresti. Fólk með neytendalán til að reyna að framfleyta sér varð fyrir forsendubresti. Því fólki er ekki bætt eitt eða neitt.

Þetta eru ekki almennar aðgerðir eins og stjórnin talar um. Þetta eru sértækar aðgerðir fyrir ákveðna hópa og það verður að horfast í augu við það.

Við erum að ráðstafa almannafé af skattfé þjóðarinnar. Mér finnst það til umhugsunar þegar við stöndum frammi fyrir því að höfuðspítali landsins, þjóðarspítalinn, er í þeim mikla vanda sem hann er í. Ég er nýkomin af kynningu um stöðu Landspítalans, læknar eru í verkfalli og eins og ástandið er þar segir maður: Það er rangt gefið í þessum málum, það er röng forgangsröðun í þjóðfélaginu. Það er mjög ómarkvisst verið að deila almannafé til ákveðinna hópa sem hefði verið hægt að nýta miklu betur og forgangsraða betur fyrir þetta þjóðfélag. Það er til skammar hvernig við sem þjóð höfum hegðað okkur varðandi fjármögnun Landspítalans og heilbrigðismála í gegnum árin.

Ég segi eins og forstjóri Landspítalans: (Forseti hringir.) Það er kominn tími til að við gyrðum okkur í brók. (Gripið fram í: … þessi ríkisstjórn?)