144. löggjafarþing — 31. fundur,  12. nóv. 2014.

störf þingsins.

[15:37]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Hún er skrýtin, þessi pólitík. Frá því að Framsóknarflokkurinn setti almenna skuldaleiðréttingu fyrir forsendubresti húsnæðislána á dagskrá á síðasta kjörtímabili hafa pólitískir andstæðingar talað hana niður af miklum móð. Fyrst var spurt hvar ætti að taka fjármagn í pakkann. Þegar bent var á raunhæfa leið til þess, sem fyrri ríkisstjórn treysti sér reyndar ekki til að gera, þ.e. með skatti á kröfuhafa, var ýmist hrópað að kostnaðurinn við aðgerðirnar væri of mikill eða of lítill.

Ekki vorum við búin að vera lengi á þingi þegar núverandi stjórnarandstaða fór að rukka sposk á svip um kosningaloforð aldarinnar, auðvitað sannfærð um að það væri ómögulegt. En jafnvel það ómögulega er hægt ef viljinn er nógu sterkur og ekki beygt af leið þótt á móti blási og tunguliprir úrtölumenn geri allt hvað þeir geti til að tala kjarkinn úr mönnum.

Auðvitað má deila um það hvernig eigi að leiðrétta. En er ekki kominn tími til að hinn venjulegi Jón, sem hefur með dugnaði og þrautseigju náð að halda sínum húsnæðislánum í skilum, fái leiðréttingu til jafns við aðra? Sérstaklega þar sem fyrri ríkisstjórn hafði leiðrétt hjá t.d. þeim sem áttu peningamarkaðsbréf og hjá skuldugustu heimilunum. Það verður ekki af þeim tekið.

Það er rétt að greiða hefði mátt niður skuldir ríkissjóðs. En ég spyr á móti: Er ekki líka mikilvægt að borga niður skuldir heimilanna í landinu? Það er ekki síður þjóðfélagslega mikilvægt eða eins og gamalt máltæki segir: Bóndi er bústólpi, bú er landstólpi. Heimilin eru grunnurinn að öflugu hagkerfi. Allt í einu er það orðið hættulegt að kaupgeta heimilanna aukist um 3% á ári næstu þrjú ár, þá fari allt úr böndunum. Fögnum því frekar. Með skattleysisviðbótarlífeyrisgreiðslu næstu þrjú árin skapast hvati til sparnaðar og ekki síst hjá unga fólkinu sem hefur fimm ár til að leggja fyrir (Forseti hringir.) til sinna fyrstu íbúðarkaupa. Vona ég að sem flestir notfæri sér það.