144. löggjafarþing — 31. fundur,  12. nóv. 2014.

skuldaleiðrétting, munnleg skýrsla forsætisráðherra, ein umræða.

[16:22]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið til að þakka fyrir þá umræðu sem hér á sér stað og hæstv. forsætisráðherra fyrir að hafa framsögu um sitt hjartans mál. Við þingflokksformenn fórum yfir það á fundi með forseta að forsætisráðherra þyrfti að vera fjarri síðari hluta umræðunnar um tiltekinn tíma og ekki í fyrsta sinn. Hann flytur hér framsögu sína og gengur svo úr þingsal og tekur ekki þátt í skoðanaskiptum. Ég geri mér vel grein fyrir því að þetta er búið mál og þetta liggur fyrir. Hér hafa allar ákvarðanir verið teknar. En þessi dónaskapur í samskiptum forsætisráðherra við þingið er orðinn nokkuð þreytandi, að láta ekki einu sinni svo lítið að hlusta hér á forustumenn stjórnarandstöðunnar ræða um 80 milljarða austur úr ríkissjóði. Getum við ekki rætt hér saman í anda skynsemi og rökhyggju, eða hvað þetta heitir allt saman á tyllidögum? Hvar er hæstv. forsætisráðherra? Hér er aðstoðarmaður ráðherrans sem er þingmaður að auki. Getur hann kannski upplýst okkur (Forseti hringir.) um það hvar forsætisráðherrann er?

Virðulegur forseti. Þetta gengur ekki. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)