144. löggjafarþing — 31. fundur,  12. nóv. 2014.

skuldaleiðrétting, munnleg skýrsla forsætisráðherra, ein umræða.

[16:25]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég skil það vel að hæstv. forsætisráðherra treysti sér ekki til að sitja hér í salnum undir ræðum mínum og játa það að mér þykir oft ekkert verra þó að hann sé ekki í salnum. En þegar þingmaður og talsmaður stjórnmálaflokks, eins og Steingrímur J. Sigfússon hér áðan, óskar eftir nærveru forsætisráðherra í umræðu um stærsta mál á kjörtímabilinu þá er nú eiginlega algert lágmark að forsætisráðherra verði við slíkri ósk strax og að hann sé hér á staðnum.

Virðulegur forseti. Að þingflokksformanninum hafi ekki verið gert viðvart um að forsætisráðherra gæti ekki verið við sína eigin umræðu, það eru ekki nógu góð vinnubrögð. Það er ástæða til að fresta fundi ef forsætisráðherra getur ekki sjálfur verið við sína eigin umræðu. Og býsna má það nú vera merkilegur fundur ef hann gengur framar fundi í þjóðþinginu um stærsta mál hæstv. forsætisráðherra.

Ég ætla auðvitað (Forseti hringir.) ekki að rengja virðulegan forseta, en ég undirstrika það bara að þetta hlýtur að vera gríðarlega mikilvægur fundur (Forseti hringir.) sem hæstv. forsætisráðherra er á og væri gott að fá upplýst hvers eðlis hann er.