144. löggjafarþing — 31. fundur,  12. nóv. 2014.

skuldaleiðrétting, munnleg skýrsla forsætisráðherra, ein umræða.

[16:29]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég vil taka undir það með félögum mínum hér á þinginu að mér finnst ólíðandi að hæstv. forsætisráðherra geti ekki tekið þátt í umræðum og hlustað á bæði gagnrýni og lof á þessar aðgerðir. Ekki síst finnst mér mjög slæmt að ég er með ákveðnar spurningar sem ég hefði viljað beina til forsætisráðherra og finnst í sjálfu sér furðuleg tilhögun að hér séu umræður um stærsta kosningamál forsætisráðherra án viðveru hans allan tímann.

Ég tek undir orð hv. þm. Róberts Marshalls um að ég mundi gjarnan vilja fá upplýsingar um það hvað var svo brýnt, hvaða fundur var svo brýnn, að hæstv. forsætisráðherra varð að fara hér úr húsi. Kannski getur hv. þingmaður og þingflokksformaður Framsóknarflokksins upplýst þingið um það. En ég legg til að við frestum umræðum (Forseti hringir.) þangað til við getum fengið hæstv. forsætisráðherra hingað í salinn.