144. löggjafarþing — 32. fundur,  13. nóv. 2014.

fjarvera forsætisráðherra í umræðu um skuldaleiðréttingu.

[10:31]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Í gær sýndi hæstv. forsætisráðherra ekki pólitískum andstæðingum sínum eða okkur í stjórnarandstöðunni óvirðingu. Í gær sýndi hæstv. forsætisráðherra Alþingi, þjóðþinginu sjálfu, þá lítilsvirðingu að fara frá sinni eigin umræðu án þess að hlýða á mál annarra, án þess að gera aðvart um að hann þyrfti að fara eða með nokkrum hætti sýna fólki hér á þessum vinnustað lágmarkstillitssemi.

Ég verð að segja að þetta kom mér algerlega í opna skjöldu, sérstaklega vegna þess að við í stjórnarandstöðunni höfðum samþykkt að ráðherrann gæti farið frá við síðari hluta umræðunnar og við mundum engar athugasemdir gera við það vegna þess að það var rætt við okkur en með þeim áskilnaði að hann hlustaði á ræður talsmanna þeirra stjórnmálaflokka sem hér eru á Alþingi um stærsta mál kjörtímabilsins.

Það var augljóst af viðbrögðum forseta Alþingis og fjármálaráðherra hér í gær að þetta kom samstarfsmönnum hans í ríkisstjórn jafn mikið á óvart og okkur í stjórnarandstöðunni. Og ég spyr hæstv. forseta: (Forseti hringir.) Hafa borist einhverjar viðhlítandi skýringar á því að framsögumaður skýrslu fari frá sinni eigin umræðu hér í þinginu?