144. löggjafarþing — 32. fundur,  13. nóv. 2014.

fjarvera forsætisráðherra í umræðu um skuldaleiðréttingu.

[10:35]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég vil rétt eins og aðrir þingmenn sem hér hafa tekið til máls vekja athygli forseta á þessari stöðu, þ.e. því að við gerum ráð fyrir ákveðnu fyrirkomulagi á fundi þingflokksformanna. Það snýst um það að þegar framsögumenn flokkanna fara með sitt mál hér í umræðu um skuldaleiðréttinguna svokölluðu þá sé forsætisráðherra viðstaddur. Síðan kemur annað í ljós og dagskrá þingsins breytist þar af leiðandi.

Mig langar að spyrja hæstv. forseta í fyrsta lagi: Hvar var forsætisráðherrann? Það er mikilvægt að það komi fram. Í öðru lagi spyr ég hvort það liggi ljóst fyrir að hæstv. ráðherra verði hér. Það er mikilvægt að forseti greini okkur frá því úr sínum stóli, hvort hæstv. ráðherra verður örugglega hér á staðnum þegar umræðan hefst.