144. löggjafarþing — 32. fundur,  13. nóv. 2014.

fjarvera forsætisráðherra í umræðu um skuldaleiðréttingu.

[10:38]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir spurningu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar: Hvaða fundur getur verið mikilvægari fyrir hæstv. forsætisráðherra en fundur í þjóðþinginu um stærsta kosningaloforð hans?

Segjum sem svo að einhvers konar náttúruhamfarir hefðu orðið eða gríðarlega aðkallandi fundur knúið hæstv. forsætisráðherra til að yfirgefa umræðuna, en hvernig uppgötvuðum við að hæstv. forsætisráðherra væri ekki hér? Við báðum um að hann kæmi í salinn. Okkur datt ekki annað í hug en hann væri bara einhvers staðar annars staðar í húsinu. En hann hafði laumast út.

Hann hafði ekki einu sinni sýnt þá viðleitni að greina frá því að eitthvað hefði komið upp og hann yrði nauðsynlega að fara frá sinni eigin umræðu. Hann hafði ekki einu sinni fyrir því að biðja um skilning á því, eins og við höfðum sýnt vegna fundar með aðilum vinnumarkaðarins kl. 5 þá um daginn, heldur fór hann út úr húsinu án þess að láta nokkurn af því vita, frá sinni eigin skýrslu og umræðu.