144. löggjafarþing — 32. fundur,  13. nóv. 2014.

fjarvera forsætisráðherra í umræðu um skuldaleiðréttingu.

[10:44]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég hlýt að taka undir með þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað á undan mér. Þetta var auðvitað mjög óeðlileg framvinda hér í gær þegar búið var að semja um umræðu að hæstv. málshefjandi og forsætisráðherra hlaupi burt án skýringa. Í tilefni af orðum hv. þm. Helga Hrafns Gunnarssonar um að þetta sé ekki í fyrsta sinn, sem ég tel nú vera réttmætt, þá velti ég fyrir mér hvort ekki sé ástæða til að hv. forsætisnefnd taki þetta mál upp og fari yfir það og kanni það hvort hér sé rétt með farið að það sé svo að það þurfi lengi að bíða eftir hæstv. forsætisráðherra til að mynda í sérstakri umræðu, að hann sé hér lítið við umræður og hvort það sé þá ekki ástæða til þess ef rétt reynist að hv. forsætisnefnd ræði við hæstv forsætisráðherra um framgöngu hans gagnvart Alþingi hvers hann situr í umboði. Ég held að það sé hlutverk forsætisnefndar og þætti vænt um að heyra viðbrögð hæstv. forseta við þessu erindi.