144. löggjafarþing — 32. fundur,  13. nóv. 2014.

afnám verðtryggingar.

[10:50]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er akkúrat þetta sem ég á við. Það er svo mikið af fögrum orðum og margar fínar nefndir sem bera fína titla, en það er ekkert um raunverulegar gerðir. Við sjáum ekkert. Við sjáum hvergi niðurstöður. Við sjáum hvergi aðgerðir sem styðja við þessi orð sem hæstv. ráðherra er sífellt að bera á borð fyrir okkur.

Hvað er raunverulega gert? Á síðasta kjörtímabili var gerð breyting á lögum þannig að Íbúðalánasjóði væri heimilt að veita óverðtryggð lán. Þessi hæstv. ráðherra, sem talar eins og hún gerði hér áðan, hefur nú slegið það út af borðinu. Það er búið að taka ákvörðun um að gera það ekki, gefa þau ekki út.

Virðulegi forseti. Mér finnst annað sérkennilegt, þ.e. að hæstv. ráðherra talar hér eins og það að banna einn lánaflokk, þ.e. 40 ára verðtryggð lán, sé að afnema verðtryggingu. Það er það bara alls ekki. Við verðum áfram jafn mikið í verðtryggðu kerfi og áður. Það verður jafn mikið boðið upp á verðtryggð lán, það er bara búið að banna einn lánaflokk. Og hvaða lánaflokkur er það? Það er kannski sá lánaflokkur sem gagnast best þeim sem hafa lægstar tekjur.