144. löggjafarþing — 32. fundur,  13. nóv. 2014.

leiðrétting til fólks á leigumarkaði.

[10:57]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Þetta var eins og venjulega, mörg orð frá hæstv. félagsmálaráðherra. En hæstv. félagsmálaráðherra var ekki spurður um orð, hann var spurður um fjármuni. 100 þús. milljónum hefur verið ráðstafað til þeirra sem eiga íbúðarhúsnæði. Félagsmálaráðherra var spurður: Hversu miklum fjármunum ætlar þessi sama ríkisstjórn að verja til þeirra 30 þús. heimila sem eru á leigumarkaði? Hæstv. ráðherra hafði einfaldlega engin svör.

Ég bið ríkisstjórnina um að íhuga þetta aðgerðaleysi sitt gagnvart þeim sem eru á leigumarkaði, vegna þess að það er hróplegt að sjá auðmenn taka við fé úr ríkissjóði og gefa það til líknarmála af því að þeir þurfa ekkert á því að halda, vegna þess að ríkisstjórnin felldi breytingartillögu okkar um að undanskilja auðmenn í aðgerðunum (Forseti hringir.) en á sama tíma sé engum fjármunum varið til þeirra sem eru á leigumarkaði.