144. löggjafarþing — 32. fundur,  13. nóv. 2014.

fjárframlög til háskóla.

[10:59]
Horfa

Eyrún Eyþórsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Spurningu minni beini ég til hæstv. menntamálaráðherra. Eftir fjármálahrunið árið 2008 voru stjórnendur Háskóla Íslands hvattir til að veita fleiri nemum skólavist og varð mikil fjölgun nema í kjölfarið. Þróunin varð til þess að við nám í Háskóla Íslands voru fleiri nemar en skólinn fékk fjármagn með. Háskóli Íslands tók sinn þátt í því að bregðast við auknu álagi eftir hrun þrátt fyrir skerðingu á fjárframlögum úr ríkissjóði.

Á síðasta ári voru 350 nemendur við nám við háskólann sem engin fjárframlög ríkisins fylgdu. Eftir tillögur fjárlagafrumvarpsins fyrir næsta ár telja háskólayfirvöld að nemendafjöldi sem ekki verða veitt fjárframlög með verði 500. Þessi staða hlýtur að teljast óviðunandi með öllu og þar sem svigrúm virðist vera að finna í ríkisrekstrinum máttu háskólayfirvöld sannarlega að gera ráð fyrir auknum fjárframlögum.

Ég vil spyrja hæstv. menntamálaráðherra hvernig hann telji að háskólayfirvöld geti brugðist við þessu. Telur ráðherrann að háskólinn eigi kannski að hætta að kenna einhverjar greinar? Á hann að leggja niður einhverjar deildir eða má búast við því að tillögur komi fram fyrir 2. umr. fjárlaga sem komi til móts við skólann og endurspegli þar með fjölgun nemenda?