144. löggjafarþing — 32. fundur,  13. nóv. 2014.

fjárframlög til háskóla.

[11:04]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ástæða þess að ekki var fjallað um háskólastigið í hvítbókinni er að sú hvítbók fjallar annars vegar um starfsemi á grunnskólastigi og læsi og hins vegar á framhaldsskólastigi. Það var ekki ætlunin að fjalla þar um háskólastigið.

Nú stendur yfir vinna í mínu ráðuneyti þar sem við erum að greina stöðu háskólanna hér í alþjóðlegu samhengi og velta upp spurningum sem snúa að stefnumótun og þeirri stöðu sem er uppi, meðal annars því að meðalaldur þeirra sem ljúka BA/BS-gráðu á Íslandi er rétt rúmlega 30 ár, en er umtalsvert lægri í öðrum ríkjum OECD að meðaltali. Meðalaldur þeirra sem koma nýskráðir inn í háskólakerfið hjá okkur er 26 ár sem er hæsta tala sem þekkist hvað þetta varðar. Þannig að það er að ýmsu að huga vissulega.

En ég ítreka það, virðulegi forseti, að í þessu fjárlagafrumvarpi var bætt við 460 milljónum til að styrkja við reikniflokkana annars vegar og hins vegar voru 400 milljónir settar í rannsóknasjóðinn til að efla vísindastarfsemi sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni í ræðu sinni.