144. löggjafarþing — 32. fundur,  13. nóv. 2014.

Túlkasjóður.

[11:11]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ítreka að túlkaþjónusta er nú þegar veitt víða í hinu opinbera kerfi. Þar er um að ræða miklu meiri fjármuni en þá sem eru í þessum sjóði sem sérstaklega var hugsaður á sínum tíma, og varð til í tíð hæstv. ráðherra, sem þá var, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, til að styðja við túlkaþjónustu í daglega lífinu. Ég ítreka að ég held að aldrei hafi verið lagt upp með það að sjóðurinn dygði alfarið fyrir alla þá starfsemi.

En það er sjálfsagt mál að við ræðum áfram um þetta þó að ég ætli að leyfa mér að segja að við erum víða að styðja við þá sem þurfa aðstoð og ég held að við getum öll verið sammála um að þar mætti bæta við, hvort sem við horfum til langveikra barna, barna í menntakerfinu sem hafa þroskafrávik eða þroskahamlanir sem gera að verkum að við þurfum að veita þeim meiri þjónustu. Við vitum að í ýmsum slíkum tilvikum vildum við svo sannarlega geta gert betur en við erum alltaf takmörkuð af þeim fjármunum sem við höfum til skiptanna. Þá skiptir mestu máli, (Forseti hringir.) virðulegur forseti, að við reynum að stækka kökuna þannig að við höfum meira á milli handanna.